Stórkostlegur Dagur

Dagur Sigurðsson með verðlaunagripinn, borinn af lærisveinum sínum í fagnaðarlátunum …
Dagur Sigurðsson með verðlaunagripinn, borinn af lærisveinum sínum í fagnaðarlátunum í Kraká í gærkvöld. AFP

Dagur Sigurðsson fullkomnaði kraftaverk sitt með hið unga lið Þýskalands þegar liðið burstaði Spánverja, 24:17, í úrslitaleiknum á Evrópumótinu í handknattleik í Kraká í Póllandi í gærkvöld. Eftir tap á móti Spánverjum í fyrsta leik mótsins óx Þjóðverjum ásmegin jafnt og þétt og frábært meistaraverk Dags með liðið skilaði því Evrópumeistaratitlinum. Dagur er annar Íslendingurinn sem gerir lið að Evrópumeisturum en Þórir Hergeirsson hefur í þrígang stýrt norska kvennalandsliðinu til sigurs á Evrópumóti.

Spánverjar, sem ætluðu að landa sínum fyrsta Evrópumeistaratitli, áttu engin svör gegn lærisveinum Dags, sem hafði öll ráð spænska liðsins í hendi sér. Þjóðverjarnir tóku leikinn strax í sínar hendur og það var snemma ljóst í hvað stefndi. Það var engu líkara en Dagur hefði tekið Berlínarmúrinn með sér til Póllands. Vörnin var stórkostleg og markvörðurinn Andreas Wolff sýndi stórbrotin tilþrif á milli stanganna. Hann lauk leiknum með 52% markvörslu og að öðrum ólöstuðum var hann maður leiksins. Staðan í hálfleik var 10:6, en aldrei áður í sögu EM hefur lið skorað jafnfá mörk í úrslitaleik. Þar með unnu Þjóðverjar annan Evrópumeistaratitil sinn en þeir unnu hann fyrst árið 2004. Evrópumeistaratitillinn skilar einnig Degi og strákunum hans farseðlinum á Ólympíuleikana í Ríó í ágúst.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert