Reynsluleysið varð að æðruleysi

Dagur Sigurðsson og hans menn fögnuðu vel og innilega með …
Dagur Sigurðsson og hans menn fögnuðu vel og innilega með stuðningsmönnum í Berlín í gær. AFP

„Ég er nokkuð léttur,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari nýkrýndra Evrópumeistara Þýskalands í handknattleik karla, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans til Kraká í gærmorgun. Dagur var þá að skrá sig út af hóteli þýska liðsins og á leið út á flugvöll þaðan sem átti að fljúga til Berlínar. „Það verður blásið til mikillar veislu í Berlín við heimkomuna með móttöku í Max Schmeling-íþróttahöllinni í Berlín, mínum gamla heimavelli. Það eitt veit ég og ætli restin af deginum fari ekki í þá skemmtun. Reiknað er með tugum þúsunda manna auk þess sem viðburður verður í beinni útsendingu í sjónvarpi,“ sagði Dagur og viðurkenndi að hafa lítið sofið um nóttina. „Skemmtun okkar hér í Kraká dróst eitthvað inn í nóttina,“ sagði Dagur sposkur og skal engan undra.

Árangri þýska landsliðsins á EM má helst líkja við ævintýri þar sem stórbrotinn leikur liðsins gegn Spánverjum í úrslitaleiknum verður lengi í minnum hafður. Flestir leikmenn liðsins voru að taka þátt í stórmóti í fyrsta sinn og fæstir þeirra hafa leikið stóra leiki fyrir sín félagslið, s.s. úrslitaleiki í stærri mótum. Eins og kunnugt er hrukku nokkrir reyndir leikmenn úr skaftinu vegna meiðsla áður en mótið hófst og jafnvel eftir að flautað var til leiks. Eftir tap í fyrsta leik mótsins, gegn Spánverjum, tók við óslitin sigurganga sem náði hámarki með hinni mögnuðu frammistöðu í úrslitaleiknum við Spán þar sem frábær varnarleikur og stórbrotinn leikur markvarðarins Andreas Wolffs stóð upp úr. Dagur sagði við þýska fjölmiðla að spilamennska landsliðsins hefði ekki átt að koma á óvart. Liðið hefði leikið vel síðustu 18 mánuði. Engu að síður viðurkennir Dagur að árangurinn hafi farið fram úr sínum björtustu vonum. Hann hafi sett stefnuna á að vera meðal átta efstu annað stórmótið í röð. Þar með væri lagður grunnur að atlögu að fjórum efstu á komandi mótum.

Þarf heppni og rétta stemningu

„Það er alveg sama hversu gott liðið er; maður þarf að hafa heppnina með sér og detta inn á réttu stemninguna hjá leikmönnum. Það má segja að það hafi gerst hjá okkur. Mótið spilaðist aðeins upp í hendurnar á okkur um leið og heppnin var með í för,“ sagði Dagur við Morgunblaðið. Ekki er víst að allir skrifi undir að heppni hafi verið með þýska liðinu, sem m.a. mátti sjá á eftir tveimur sterkum leikmönnum í alvarleg meiðsli þegar þrír leikir voru eftir. „Jú, það má segja að við værum óheppnir að missa menn í meiðsli en að sama skapi var það lán hversu ferskir leikmennirnir tveir voru sem leystu þá af hólmi. Báðir hjálpuðu okkur mjög mikið. En auðvitað er slæmt að missa menn úr liðinu á miðri leið.“

Ítarlegt viðtal og umfjöllun um Dag Sigurðsson er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert