Sjáðu meistaraáætlun Dags

Dagur Sigurðsson borinn af lærisveinum sínum með verðlaunagripinn í höndunum …
Dagur Sigurðsson borinn af lærisveinum sínum með verðlaunagripinn í höndunum eftir að Evrópumeistaratitillinn var í höfn. AFP

Dagur Sigurðsson birti á Twitter-síðu sinni í dag ansi velkt blað með alls konar áætlunum um hvernig best væri fyrir þýska landsliðið að spila, sem ætla má að hann hafi haft í vasanum á nýafstöðnu Evrópumóti í handbolta.

Undir stjórn Dags varð Þýskaland sem kunnugt er Evrópumeistari á sunnudaginn, með sigri á Spáni. Á meðan á mótinu stóð, og raunar allt þetta ár, hafði Dagur ekkert skrifað á Twitter fyrr en á mánudaginn þegar hann óskaði fylgjendum sínum gleðilegs árs og spurði hvort eitthvað væri að frétta. Hann þakkaði svo kærlega fyrir allan stuðninginn og kveðjurnar sem hann hefur fengið síðustu daga.

Í dag birti hann svo fyrrnefnt blað, „meistaraáætlun“, sem handboltafróðir menn geta rýnt í til að reyna að átta sig á leyndardóminum á bakvið hinn óvænta Evrópumeistaratitil þýska liðsins. Í stað þess að hafa upplýsingarnar í snjallsíma eða spjaldtölvu er Dagur með þær á rúðustrikuðu blaði, og hann bendir á að það geti borgað sig að hafa hlutina einfalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert