Króatar stungu af í seinni hálfleik

Igor Karacic sækir að íslensku vörninni í leik Íslands og …
Igor Karacic sækir að íslensku vörninni í leik Íslands og Króatíu í Split í kvöld. Ljósmynd/Uros Hocevar

Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði í kvöld öðrum leik sínum á EM í Króatíu. Ísland mætti þá heimamönnum og lokatölur urðu 29:22. Staðan var 14:13 í leikhléi en króatíska liðið var mun sterkara í síðari hálfleik.  

Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi og skiptust liðin á að hafa forystuna í byrjun leiks. Króatar komust tveimur mörkum yfir í fyrsta skipti á 21. mínútu í stöðunni 10:8. Króatar náðu svo þriggja marka forystu skömmu síðar, 12:9. Íslenska liðið gerði hins vegar vel í að minnka muninn í eitt mark fyrir hálfleik, 14:13.

Íslenska liðið tapaði boltanum átta sinnum í hálfleiknum en Króatar aðeins einu sinni. Björgvin Páll Gústavsson sá hins vegar til þess að það skipti ekki of miklu máli. Hann varði sjö skot í hálfleiknum, þar af eitt víti og nokkur úr dauðafærum. Hinum megin varði Mirko Alilovic aðeins eitt skot. Skotnýting íslenska liðsins var því til fyrirmyndar og gekk vel að finna menn í góðum færum.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn á því að jafna leikinn með marki Janusar Daða Smárasonar. Króatar skoruðu hins vegar næstu fimm mörk og komust í 19:14 og skömmu síðar var staðan 21:15. Íslenska liðinu gekk ekkert í að stöðva króatísku sóknina, Björgvin hætti að verja og hinum megin voru tapaðir boltar of algengir. Króatar náðu sjö marka forystu í stöðunni 22:15 þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. Munurinn var sex til sjö mörk þangað til átta mínútum fyrir leikslok þegar Króatía komst í 26:18 og náði átta marka forystu í fyrsta skipti. Að lokum munaði sjö mörkum á liðunum og sigur Króata öruggur og sanngjarn.

Aron Pálmarsson var markahæstur í íslenska liðinu með fimm mörk og Arnór Þór Gunnarsson skoraði fjögur, þar af þrjú úr vítum. Björgvin Páll Gústavsson varði níu skot í markinu. Luka Cindric var markahæstur allra með sjö mörk. Ivan Stevanovic varði átta skot í króatíska markinu, öll í seinni hálfleik. 

Króatía 29:22 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið Heimamenn voru of góðir fyrir íslenska liðið í seinni hálfleik.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert