Hvenær losna okkar menn úr einangrun?

Elvar Örn Jónsson var einn þeirra sem fengu jákvæða niðurstöðu …
Elvar Örn Jónsson var einn þeirra sem fengu jákvæða niðurstöðu 19. janúar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Níu leikmenn íslenska landsliðsins í handknattleik eru í einangrun á liðshótelinu í Búdapest. Lítið sem ekkert veikir eftir því sem næst verður komist, en smitaðir af kórónuveirunni.

Að kvöldi 19. janúar var tilkynnt að Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Guðmundsson hefðu smitast og höfðu þá fengið jákvæða niðurstöðu úr PCR prófi. 

Dagana á eftir hafa ávallt verið einhver smit í íslenska hópnum. Daginn eftir, 20. janúar, sýndu PCR próf að Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson væru einnig smitaðir. Áður en Ísland mætti Dönum hafði Gísli Þorgeir Kristjánsson einnig smitast. 

Fyrirliðinn Aron Pálmarsson þarf að fylgjast með sínum mönnum úr …
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson þarf að fylgjast með sínum mönnum úr einangrun. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Eftir því sem næst verður komist munu sérfræðingar úr heilbrigðisgeiranum hafa valdið til að skera úr um ef eða hvenær þeim er heimilt að spila aftur í keppninni. Hvort það séu Ungverjar á heilbrigðisstofnunum hér í landi eða sérfræðingar á vegum Handknattleikssambands Evrópu veit ég ekki. 

Leikmenn sem smitast á EM verða að fara í einangrun í fimm daga.  Maður hefur orðið var við vangaveltur um að eftir fimm daga geti smitaðir ekki lengur smitað aðra. Á fimmta degi er spurning hvaða niðurstöður koma úr PCR prófi. Í það minnsta er alla vega miðað við fimm daga einangrun í sambandi við EM.

Björgvin, Elvar og Ólafur bíða þá væntanlega þess sem verða vill á morgun.  Ekki er hins vegar nóg að PCR prófið sé neikvætt. Sérfræðingarnir sem þurfa að gefa mönnum leikheimild munu einnig skoða eitthvað sem kallað er CT gildi (vísbending um veirumagn).

CT gildið þarf helst að vera yfir 30. Ef prófið er jákvætt en CT gildið er undir 30 þá er það eitthvað sem sérfræðingarnir skoða áður en lengra er haldið. Ef talan er vel yfir 30 þá ætti að vera lítil smithætta en þó einhver. 

Því miður er því ekki hægt að svala forvitni lesenda og svara því hvenær okkar menn snúa aftur á völlinn. Það virðist vera ómögulegt að spá fyrir um það en þegar Ísland mætir Svartfjallalandi í síðasta leiknum í milliriðlinum á miðvikudaginn gætu ef til vill einhverjir fengið leikheimild.

Hvert tilfelli verður skoðað fyrir sig þegar menn hafa afplánað fimm daga einangrunina en dagsetningar á einangrun íslensku leikmannanna eru þessar og hægt að reikna út frá þeim:

19. janúar: Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson, Ólafur Andrés Guðmundsson
20. janúar: Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson
21. janúar: Jón Birgir Guðmundsson sjúkraþjálfari
22. janúar: Arnar Freyr Arnarsson, Janus Daði Smárason
23. janúar: Daníel Þór Ingason

Leikdagar sem eftir eru:
24. janúar: Ísland - Króatía
26. janúar: Ísland - Svartfjallaland
28. janúar: Undanúrslit og leikur um 5. sætið
30. janúar: Úrslitaleikir um gull og brons

Uppfært: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar var ekki rétt farið með í umfjöllun um CT gildi. Við því hefur nú verið brugðist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert