Jafntefli á White Hart Lane

Julio Babtista kom mikið við sögu í kvöld. Hér er …
Julio Babtista kom mikið við sögu í kvöld. Hér er hann í þá mund að setja boltann í eigið mark. Reuters

Fyrri undanúrslitaleik Arsenal og Tottenham í enska deildabikarnum í knattspyrnu lauk nú rétt í þessu og lyktaði honum með jafntefli, 2:2. Liðin mætast aftur á Emirates Stadium eftir viku og þá mun koma í ljós hvort þeirra mætir Chelsea í úrslitaleik keppninnar.

Tottenham hóf leikinn betur og komst í 1-0 eftir 13 mínútna leik þegar að Dimitar Berbatov skoraði með skalla. Hann spilaði þó ekki lengi eftir það, því að 5 mínútum síðar fór hann útaf meiddur. Það kom þó ekki í veg fyrir að Tottenham kæmist í 2-0, Tom Huddlestone tók aukaspyrnu frá vinstri sem að Julio Baptista fékk í hælinn og boltinn hafnaði þaðan í netið.

Baptista bætti fyrir sjálfsmarkið með tveimur mörkum í síðari hálfleik. Það fyrra kom á 64. mínútu eftir þríhyrningspil við Theo Walcott. Jöfnunarmarkið kom svo 13 mínútum síðar, Justin Hoyte gaf fyrir frá hægri og Baptista var fyrstur í boltann og setti hann í netið.

Babtista er þar með búinn að skora 6 mörk fyrir Arsenal í tveimur síðustu leikjum Arsenal í keppninni, en hann gerði fjögur mörk þegar að liðið vann Liverpool 6-3 í 8-liða úrslitum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert