Benítez og Parry áfram við stjórn hjá Liverpool

George Gillett og Tom Hicks á Anfield í dag.
George Gillett og Tom Hicks á Anfield í dag. Reuters

Bandarísku auðkýfingarnir George Gillett og Tom Hicks sem keyptu í dag enska knattspyrnufélagið Liverpool, lýstu því yfir á blaðamannafundi á Anfield að þeir ætluðu sér að virða og byggja á hinum mikla grunni sem félagið væri reist á. Rafael Benítez yrði áfram knattspyrnustjóri Liverpool og Rick Parry áfram framkvæmdastjóri. Þá hefur fráfarandi stjórnarformaður, David Moores, þekkst boð nýju eigendanna um að gerast heiðursforseti Liverpool til lífstíðar.

Gillett og Hicks eru andstæðingar í amerísku íshokkídeildinni þar sem þeir eiga sitt hvort félagið. Hicks á liðið Dallas Stars og Gillett á Montreal Canadiens, en Hicks á auk þess hafnaboltaliðið Texas Rangers. Þeir ætla hinsvegar að sameinast um að styrkja stöðu Liverpool í enskri og evrópskri knattspyrnu.

Þeir lýstu því jafnframt yfir að þeir hefðu ekki skuldsett Liverpool á neinn hátt við kaupin. „Við höfum keypt félagið án skuldsetningar. Við höfum mikla trú á framtíð þessa félags og deildarinnar, nýir sjónvarpssamningar hér eru magnaðir og við erum stoltir af því að taka þátt. Knattspyrnan er stærsta og umfangsmesta íþróttagrein heims og þetta er mikilvægasta félagið í þessari stóru íþrótt. Við lítum á það sem heiður að tengjast því og við vonum að með samvinnu við Rick og félaga muni félagið bæði njóta velgengni innan vallar og utan," sagði Gillett á blaðamannafundinum.

David Moores, fráfarandi stjórnarformaður sem átti meirihluta í Liverpool, hvatti aðra hluthafa til að fara að fordæmi sínu og tryggja með því árangursríka framtíð félagsins.

Gillett og Hicks hafa lofað peningum til að styrkja lið Liverpool, en þeir munu jafnframt leggja háar fjárhæðir til byggingar nýs leikvangs fyrir félagið í Stanley Park.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert