Ryan Giggs spilar 700. leikinn á morgun

Ryan Giggs fagnar einu marka sinna fyrir United í vetur.
Ryan Giggs fagnar einu marka sinna fyrir United í vetur. Reuters

Ryan Giggs, knattspyrnumaðurinn snjalli frá Wales, leikur á morgun sinn 700. leik fyrir Manchester United þegar lið hans sækir Liverpool heim í ensku úrvalsdeildinni. Hann verður þá jafnframt búinn að spila með aðalliði félagsins í sextán ár. Carlos Queiroz, aðstoðarstjóri United, segir að Giggs fari létt með að spila af fullum krafti til ársins 2010.

Samningur Giggs við United rennur út eftir rúmlega ár, vorið 2008, og hann hefur sjálfur sagt að óvíst sé að hann haldi áfram að þeim tíma liðnum.

„Við reiknum með því að hann spili áfram með okkur næstu tvö til þrjú árin. Það er mjög sjaldgæft að leikmaður í þessum gæðaflokki spili í sextán ár með sama félaginu. Hann á að baki frábæran og ótrúlegan feril. Hann hefur ekki bara á toppnum allan þann tíma, heldur hefur hann ávallt verið einu skrefi á undan þeim kröfum og markmiðum sem Manchester United setur, og það er magnað. Það segir líka sitthvað um persónuleika hans, ástríðu hans fyrir leiknum og fyrir félaginu, hvatningu hans og einbeitingu á æfingum," sagði Carlos Queiroz við BBC.

Giggs er 33 ára gamall og lék sinn fyrsta leik fyrir United snemma árs 1991. Hann nálgast óðum sinn 500. deildaleik og 100. deildamark fyrir félagið en hann á 496 leiki og 99 mörk að baki í efstu deild í Englandi. Aðeins Bobby Charlton hefur spilað fleiri leiki á ferlinum fyrir Manchester United.

Giggs á að baki 60 landsleiki fyrir Wales og hefur þar skorað 11 mörk en hann hefur í gegnum tíðina sjaldan leikið vináttulandsleiki þjóðar sinnar og hefði því hæglega getað verið mun hærri á þeim lista.

Giggs er annar tveggja leikmanna í sögunni sem hafa skorað á öllum tímabilum ensku úrvalsdeildarinnar, frá því hún var stofnuð árið 1992 og þá varð hann fyrstur til að skora tólf ár í röð í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert