Sigurmark Eiðs Smára ekki nóg fyrir Barcelona

Steven Gerrard hjá Liverpool og Andres Iniesta hjá Barcelona í …
Steven Gerrard hjá Liverpool og Andres Iniesta hjá Barcelona í baráttu í leiknum á Anfield í kvöld. Reuters

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði sigurmark Spánar- og Evrópumeistara Barcelona í kvöld þegar þeir sigruðu Liverpool á útivelli, 1:0, í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Markið var ekki nóg, samanlagt voru liðin jöfn, 2:2, en Liverpool kemst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Liverpool er komið í átta liða úrslit en Evrópumeistarar Barcelona eru úr leik.

Fyrri hálfleikur var markalaus en Liverpool hafði talsverða yfirburði. Tvívegis small boltinn í þverslánni á marki Barcelona, fyrst eftir þrumufleyg frá John Arne Riise og síðan þegar Mohamed Sissoko skaut á tómt markið af 35 metra færi eftir misheppnaða spyrnu Valdes markvarðar frá marki Barcelona. Liverpool átti tíu markskot í fyrri hálfleik en Barcelona aðeins eitt.

Barcelona sótti í sig veðrið í seinni hálfleik og sóknarþunginn jókst smám saman. Eiður Smári kom inná sem varamaður á 71. mínútu, fyrir varnarmannin Lilian Thuram, og þá mátti segja að leikaðferð spænsku meistaranna væri orðin 3-3-4.

Eiður hafði aðeins verið inná í fjórar mínútur þegar hann fékk sendingu innfyrir vörn Liverpool, lék á José Reina markvörð og skoraði, 1:0.

Barcelona sótti án afláts á lokakafla leiksins en þegar komið var framyfir leiktímann átti Liverpool góða skyndisókn sem lauk með því að Peter Crouch skaut yfir mark Barcelona úr sannkölluðu dauðafæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert