Coleman rekinn frá Fulham

Chris Coleman var í kvöld rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri …
Chris Coleman var í kvöld rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Fulham. Reuters

Chris Coleman knattspyrnustjóra Fulham var í kvöld sagt upp störfum hjá félaginu og mun Lawrie Sanchez landsliðsþjálfari N-Íra stýra liðinu það sem eftir lifir leiktíðar. Hvorki hefur gengið né rekið hjá Fulham síðustu vikurnar og eftir 3:1 tap gegn Manchester City í gær er liðið fjórum stigum frá fallsæti.

Fulham, sem Heiðar Helguson leikur með, hefur leikið sjö leiki í röð án sigurs en þrátt fyrir slakan árangur liðsins undanfarin misseri kom uppsögnin á óvart.

Í tilkynningu sem Fulham sendi frá sér í kvöld segir meðal annars: ,,Fulham þakkar Coleman fyrir frábært starf í þágu félagsins þau 10 ár sem hann hefur verið hjá félaginu. Það eru vonbrigði að félagið hafi ekki aðra möguleika en að grípa til þess ráðs en að láta leiðis skilja."

Coleman gekk til liðs við Fulham sem leikmaður árið 1997 frá Blackburn en eftir alvarlegt umferðarslys árið 2001 neyddist hann til að leggja skóna á hilluna. Hann tók við knattspyrnustjórastarfinu af Frakkanum Jean Tigana í apríl 2003.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert