Ferguson: Óttast ekki AC Milan

Alex Ferguson fylgist með sínum mönnum á æfingu.
Alex Ferguson fylgist með sínum mönnum á æfingu. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að lið sitt óttist alls ekki AC Milan enda þótt sjö öflugir leikmenn verði fjarri góðu gamni vegna meiðsla hjá United þegar liðin mætast á Old Trafford í kvöld. Þetta er fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„Ég óttast ekkert og andinn í hópnum er mér að skapi. Á þessum árstíma skipta taugarnar miklu máli og þó við séum áhyggjufullir vegna mikilla meiðsla í hópnum sé ég engin merki um að menn séu óstyrkir," sagði Ferguson en Rio Ferdinand, Gary Neville, Nemanja Vidic, Mikael Silvestre, Louis Saha, Ji-Sung Park og Kieran Richardson eru allir frá vegna meiðsla. Þá er Patrice Evra líklega ekki tilbúinn í heilan leik.

„Þetta verður ekki auðvelt en hjá okkur gengur þetta út á að vinna leikinn og fá ekki á okkur mark. Það er okkar áætlun, og takist okkur það verða það frábær úrslit fyrir okkur. Ég er með fínt byrjunarlið en það vantar kannski dálítið uppá varamannabekkinn, en ég er ánægður með þann hóp sem ég hef. Að sjálfsögðu saknar maður leikmanna á borð við Ferdinand og Neville í svona stórleikjum en liðsandinn er góður. Við reiknum með mjög góðri frammistöðu hjá þeim sem við teflum fram," sagði Ferguson.

Á varamannabekknum verða minni spámenn á borð við Chris Eagles, Fang Zhou Dong, Kieran Lee og Michael Barnes.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert