UEFA: Liverpool með verstu áhorfendur í Evrópu

Stuðningsmenn Liverpool fylgjast með leiknum í Aþenu.
Stuðningsmenn Liverpool fylgjast með leiknum í Aþenu. Reuters

Samkvæmt skýrslu UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, eru stuðningsmenn Liverpool þeir verstu í álfunni þegar litið er til vandræða sem upp koma í kringum leiki liðs þeirra á erlendri grundu.

Skýrslan er byggð á rannsóknum á 25 atvikum sem átt hafa sér stað á undanförnum fjórum árum og snúa að enskum félögum erlendis. Flest þeirra tengjast Liverpool en stuðningsmenn annarra félaga eru sjaldnast til vandræða, samkvæmt skýrslunni.

„Hverjir aðrir stela miðum frá félögum sínum og hrifsa þá úr höndum barna? Við vitum að slíkt átti sér stað í Aþenu," segir William Gaillard, talsmaður UEFA, og vitnar þar til úrslitaleiksins í Meistaradeild Evrópu í síðasta mánuði þegar Liverpool beið lægri hlut fyrir AC Milan.

„Við vissum áður en að úrslitaleiknum í Aþenu kom að stuðningsmenn Liverpool koma oft að hliðstæðum málum, Aþena er bara nýjasta dæmið og það voru Liverpool-menn sem áttu stærstan þátt í þeim ólátum sem þar urðu. Maður spyr sjálfan sig hvers vegna stuðningsmenn AC Milan áttu ekki þátt í neinu sem gerðist í kringum þann sama leik," sagði Gaillard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert