Torres með sex ára samning við Liverpool

Fernando Torres fær treyju Atlético Madrid að gjöf frá Enrique …
Fernando Torres fær treyju Atlético Madrid að gjöf frá Enrique Cerezo forseta spænska félagsins á fundinum í dag. Reuters

Spænski knattspyrnumaðurinn Fernando Torres var kynntur til sögunnar hjá enska félaginu Liverpool í dag en á blaðamannafundi í Madríd var kunngjört að Torres hefði skrifað undir sex ára samning við félagið. Kaupverð hans er 20 milljónir punda, um 2,5 milljarðar króna, en getur orðið samtals 26,5 milljónir punda, rúmir 3,3 milljarðar króna. Torres verður í treyju númer 9 hjá Liverpool en henni hafa þekktir kappar á borð við Robbie Fowler og Ian Rush klæðst á seinni árum.

Torres er 23 ára gamall sóknarmaður, uppalinn hjá Atlético Madrid og hefur verið markahæsti leikmaður liðsins fimm ár í röð í spænsku 1. deildinni. Hann er kominn í stórt hlutverk í landsliði Spánar og er almennt talinn einn efnilegasti knattspyrnumaður í Evrópu.

„Þegar tilboð Liverpool barst sagði ég forráðamönnum Atlético að taka það til greina því þetta væri liðið sem ég vildi leika með. Liverpool er eitt besta, ef ekki besta félag í Evrópu. Það var erfitt að yfirgefa mitt æskufélag en það hefði verið erfitt fyrir mig að hafna tilboði Liverpool. Þetta er stórt skref á mínum ferli og tel að ákvörðunin sé sú rétta fyrir alla aðila. Sá dagur kemur á ferli hvers leikmanns að hann þarf að takast á við stærri áskorun," sagði Torres á blaðamannafundinum í dag en hann gekkst undir læknisskoðun hjá Liverpool í gær og flaug aftur til Madrid vegna fundarins og til að kveðja stuðningsmenn Atlético.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert