Ferguson: Ronaldo var ögrað og hann féll í gildruna

Cristiano Ronaldo býr sig undir að ganga af velli eftir …
Cristiano Ronaldo býr sig undir að ganga af velli eftir að hann fékk rauða spjaldið en Richard Hughes og Benjani Mwaruwari fylgjast með. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, var óánægður með rauða spjaldið sem Cristiano Ronaldo fékk í leiknum gegn Portsmouth. Portúgalinn virtist þá skalla Richard Hughes, leikmann Portsmouth, og hann fær fyrir vikið þriggja leikja keppnisbann.

Ferguson viðurkenndi að hann hefði ekki séð atvikið nægilega vel og það hafi verið rangt hjá Ronaldo að svara fyrir sig, enda þótt hann segi að sér hafi verið ögrað.

„Mín tilfinning er sú að honum hafi verið ögrað. Hann féll í gildruna og þarf að taka afleiðingunum af því. Hann var hissa á þessari ákvörðun dómarans en Steve Bennett hefur áður rekið hann af velli og ég held að hann hafi notið þess að sýna Ronaldo rauða spjaldið.

Fyrir vikið fengum við ekki tækifæri til að nýta okkur það að vera 11 gegn 10 og reyna að knýja fram sigur," sagði Ferguson en rétt á undan fékk Sulley Munteri, leikmaður Portsmouth, einnig rauða spjaldið. Leikurinn endaði 1:1.

Ronaldo verður í banni í næstu þremur leikjum og sá fyrsti er nágrannaslagurinn gegn Manchester City á sunnudaginn kemur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert