Manchester City efst eftir sigur á Manchester United

Geovanni fagnar eftir að hafa komið City yfir en Patrice …
Geovanni fagnar eftir að hafa komið City yfir en Patrice Evra varnarmaður United er að vonum ekki sáttur. Reuters

Manchester City er í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir óvæntan en sætan sigur á nágrönnum sínum í Manchester United, 1:0, á heimavelli sínum, City of Manchester Stadium, í dag. Lið City hefur 9 stig eftir þrjá fyrstu leikina og hefur ekki fengið á sig mark en United er enn án sigurs og hefur aðeins 2 stig eftir þrjá leiki. Geovanni skoraði sigurmark City á 31. mínútu.

City varð fyrir áfalli strax á 8. mínútu þegar Valeri Bojinov fór meiddur af velli. Emil Mpenza kom í hans stað.

Manchester United var með talsverða yfirburði fyrsta hálftímann og átti þá fimm markskot gegn aðeins einu frá City, sem kom á 30. mínútu.

Það kom því sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Geovanni kom City yfir á 31. mínútu með þrumuskoti af 25 m færi, 1:0. Þvert gegn gangi leiksins.

Leikurinn jafnaðist aðeins eftir markið, United var áfram sterkari aðilinn út fyrri hálfleikinn en staðan að honum loknum var 1:0.

Nemanja Vidic, miðvörður United, átti hörkuskalla í þverslána á marki City eftir hornspyrnu á 48. mínútu.

Carlos Tévez fékk sannkallað dauðafæri til að jafna metin um leið og 90. mínútan rann út en hann skallaði framhjá marki City af aðeins eins meters færi eftir hornspyrnu.

United sótti linnulítið allan seinni hálfleikinn en gekk illa að skapa sér færi gegn sterkri vörn City þar sem hinn ungi Micah Richards fór á kostum ásamt Richard Dunne.

Tíðindi fyrir leikinn:

Sven-Göran Eriksson gerði tvær breytingar á liði City. Stephen Ireland er veikur og Geovanni kom í hans stað og þá var Valeri Bojinov valinn í staðnn fyrir Rolando Bianchi sem var settur á bekkinn.

Owen Hargreaves kom inní byrjunarlið United í fyrsta skipti en hann kom til félagsins frá Bayern München í sumar. Hann kom í staðinn fyrir Cristiano Ronaldo sem tekur út fyrsta leikinn af þremur í leikbanni.

Byrjunarliðin eru þannig:

Lið City: Schmeichel, Corluka, Richards, Dunne, Garrido, Johnson, Hamann, Petrov, Geovanni, Elano, Bojinov.
Varamenn: Hart, Onuoha, Ball, Bianchi, Mpenza.

Lið United: Van der Sar, Brown, Ferdinand, Vidic, Evra, Giggs, Hargreaves, Carrick, Scholes, Nani, Tévez.
Varamenn: Kuszczak, O'Shea, Silvestre, Eagles, Campbell

Owen Hargreaves er í byrjunarliði Manchester United í fyrsta skipti.
Owen Hargreaves er í byrjunarliði Manchester United í fyrsta skipti. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert