Steven Gerrard: Viðurkenndu mistökin

Steven Gerrard á fleygiferð í leiknum í gær.
Steven Gerrard á fleygiferð í leiknum í gær. Reuters

Steven Gerrard, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool, hefur skorað á dómarann Rob Styles að stíga fram og viðurkenna mistök sín í leik liðsins gegn Chelsea í gær. Styles dæmdi þá afar ódýra vítaspyrnu á Liverpool sem Frank Lampard jafnaði úr og lokatölur á Anfield urðu 1:1.

„Ég vona að hann komi fram og viðurkenni mistökin. Við leikmennirnir þurfum að gera það þegar okkur verður á í messunni og nú bíð ég spenntur eftir viðbrögðum dómarans," sagði Gerrard og var jafnframt ekki sáttur við framkomu leikmanna Chelsea, sagði að þeir hefðu sett óeðlilegan þrýsting á Styles dómara.

„Styles átti ekki góðan dag að þessu sinni. Hann var undir mikilli pressu frá leikmönnum Chelsea og mitt mat er að hann hafi að lokum látið undan henni," sagði Gerrard en kvaðst jafnframt á því að frammistaða Liverpool í leiknum hefði sýnt að liðið væri tilbúið í slaginn um meistaratitilinn.

„Við getum tekið margt jákvætt með okkur úr þessum leik, ég tel að hann sýni að við getum tekið þátt í baráttunni í vetur," sagði Gerrard, sem lék deyfður vegna brákaðrar táar en hann fer í nánari rannsókn vegna hennar í dag. Gerrard lagði upp mark Liverpool í leiknum með frábærri sendingu á nýja Spánverjann, Fernando Torres, sem gerði sitt fyrsta mark á Anfield.

„Þetta var dæmigert mark fyrir Torres. Ef hann fær réttu sendingarnar mun hann skora mörk. Hans leikur snýst um að hlaupa innfyrir varnarmennina, nýta sér hraðann, og hann hefur sýnt að hann getur skorað mörk þó hann sé aðþrengdur," sagði Steven Gerrard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert