Wenger og Fabregas bestir í september

Cesc Fabregas og Arsene Wenger með viðurkenningar sínar í dag.
Cesc Fabregas og Arsene Wenger með viðurkenningar sínar í dag. Reuters

Arsenal sigraði tvöfalt í kjörinu um besta leikmann og besta knattspyrnustjóra septembermánaðar í ensku úrvalsdeildinni, sem var gert opinbert í dag. Cesc Fabregas var útnefndur besti leikmaðurinn og Arsene Wenger besti knattspyrnustjórinn.

Arsenal vann alla fjóra deildaleiki sína í september og Fabregas skoraði í þremur leikjanna. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Fabregas fær þessi verðlaun en hann var líka útnefndur besti leikmaður deildarinnar í janúar. Hann hefur til þessa ekki skorað mikið af mörkum en í haust hefur Spánverjinn ungi heldur betur reimað á sig skotskóna því hann hefur gert 7 mörk í 13 fyrstu leikjum Arsenal.

Wenger er með lið sitt á toppi úrvalsdeildarinnar eftir frábæra byrjun á tímabilinu. Lið hans hefur ekki tapað leik og er með tveggja stiga forskot á Manchester United, og á leik til góða. Þetta er í níunda sinn á ferlinum sem Wenger er valinn besti knattspyrnustjórinn í ákveðnum mánuði í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert