Auðveldur sigur Man.Utd á níu leikmönnum Villa

Wayne Rooney skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik.
Wayne Rooney skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik. Reuters

Manchester United vann auðveldan sigur á Aston Villa, 4:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í dag. Wayne Rooney skoraði tvö markanna en tveir leikmenn Aston Villa, Nigel Reo-Coker og markvörðurinn Scott Carson, voru reknir af velli í síðari hálfleik.

Rooney hefði getað skorað þrennu en Stuart Taylor, varamarkvörður Villa, varði frá honum vítaspyrnu, strax eftir að hann kom inná fyrir Carson.

United komst með sigrinum aftur í annað sætið, tveimur stigum á eftir Arsenal, sem á leik til góða.

Staðan eftir leikinn: Arsenal 25, Man.Utd 23, Man.City 22, Liverpool 19, Portsmouth 18, Blackburn 18, Chelsea 18, Aston Villa 14, Newcastle 14, Everton 13, West Ham 10, Reading 10, Fulham 8, Birmingham 8, Wigan 8, Middlesbrough 8, Sunderland 8, Tottenham 7, Derby 6, Bolton 5.

Aston Villa náði forystunni strax á 12. mínútu. Ashley Young sendi þá fyrir mark United frá vinstri og Gabriel Agbonlahor skoraði með skalla frá markteig, 1:0.

Wayne Rooney jafnaði metin á 36. mínútu með skoti af stuttu færi eftir að Nani sendi boltann fyrir mark Villa frá hægri.

Rooney var aftur á ferð á 44. mínútu og kom United í 2:1. Carlos Tévez átti þá góðan sprett utan frá vinstri kanti og renndi boltanum inní miðjan vítateig á Rooney sem lagði hann fyrir sig og afgreiddi hann í markið.

Og leikmenn United voru ekki hættir því í uppbótartíma í fyrri hálfleiknum skoraði Craig Gardner sjálfsmark. Eftir hornspyrnu frá Nani skaut Rio Ferdinand að marki, Gardner reyndi að bjarga en skaut boltanum uppí þverslána og inn. Staðan 3:1 í hálfleik fyrir meistarana.

Ekki batnaði ástandið hjá Aston Villa á 60. mínútu þegar Nigel Reo-Coker braut illa á Anderson, fékk sitt annað gula spjald og var rekinn af velli.

Á 66. mínútu syrti enn í álinn hjá heimamönnum á Villa Park. Carlos Tévez slapp inní vítateiginn þar sem Scott Carson markvörður braut á honum. Carson var rekinn af velli og dæmd vítaspyrna, og leikmenn Villa orðnir tveimur færri. Stuart Taylor varamarkvörður kom inná fyrir miðvörðinn Zat Knight. Taylor gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna frá Wayne Rooney sem þar með missti af þrennunni.

En gegn níu leikmönnum Villa hlutu fleiri mörk að líta dagsins á ljós. Á 75. mínútu fékk Ryan Giggs boltann á hægri kantinum, lék inní vítateiginn og innundir vítapunkt, þar sem hann sendi hann í netið, með viðkomu í tveimur varnarmönnum Villa, 4:1.

Lið Villa: Carson, Bouma, Mellberg, Knight, Laursen, Gardner, Reo-Coker, Barry, Young, Agbonlahor, Moore.
Varamenn: Taylor, Davies, Petrov, Osbourne, Maloney.

Lið Man.Utd: Van der Sar, Brown, Pique, Ferdinand, Evra, Nani, Anderson, Scholes, Giggs, Tévez, Rooney.
Varamenn: Kuszczak, Ronaldo, O'Shea, Fletcher, Simpson.

Leikmenn Aston Villa fagna Gabriel Agbonlahor eftir að hann kom …
Leikmenn Aston Villa fagna Gabriel Agbonlahor eftir að hann kom þeim yfir á 12. mínútu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert