Mark Crouchs nóg fyrir England í Vín

David Beckham leikur á Markus Weissenberger í leiknum í kvöld.
David Beckham leikur á Markus Weissenberger í leiknum í kvöld. Reuters

England sigraði Austurríki, 1:0, í vináttulandsleik í knattspyrnu sem fram fór á Ernst Happel leikvanginum í Vínarborg í kvöld. Peter Crouch skoraði sigurmarkið í lok fyrri hálfleiks.

Englendingar fengu fyrsta hættulega færið á 32. mínútu. Eftir fallegt spil komst Michael Owen einn gegn Alex Manninger sem varði fast skot hans í horn. Owen fór meiddur af velli strax á eftir og Jermain Defoe kom í hans stað.

England náði forystunni á 44. mínútu eftir þunga sókn að marki Austurríkis. David Beckham tók hornspyrnu frá vinstri og Peter Crouch gnæfði uppúr þvögunni á markteignum og skallaði boltann í mark heimamanna, 1:0 fyrir England.

Síðari hálfleikur var afar bragðdaufur og mikið breytt lið Englands var ekki í vandræðum með að halda fengnum hlut gegn slökum heimamönnum.

Lið Englands: Scott Carson - Micah Richards, Sol Campbell, Jolean Lescott, Wayne Bridge - David Beckham, Steven Gerrard, Frank Lampard, Joe Cole - Peter Crouch, Michael Owen.

Englendingar eru að búa sig undir leik gegn Króötum í undankeppni EM næsta miðvikudag, á Wembley. Austurríkismenn eru gestgjafar á EM ásamt Svisslendingum og þurftu því ekki að taka þátt í undankeppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert