Reiknað með brottvikningu McClarens strax

Steve McClaren fylgist hnípinn með enska liðinu í rigningunni á …
Steve McClaren fylgist hnípinn með enska liðinu í rigningunni á Wembley í gærkvöld. Reuters

Stjórn enska knattspyrnusambandsins hefur verið kölluð saman á neyðarfund nú í morgunsárið og fyrir honum liggur eitt mál - brottvikning landsliðsþjálfarans, Steves McClarens. England tapaði, 2:3, fyrir Króatíu í gærkvöld og kemst þar með ekki í úrslitakeppni Evrópumótsins en enska liðinu nægði jafntefli til að ná því takmarki sínu.

McClaren sagði strax eftir leik í gærkvöld að hann myndi ekki segja starfi sínu lausu. John Terry, fyrirliði, sem reyndar lék ekki í gærkvöld, sagði að leikmenn liðsins stæðu þétt að baki þjálfarans, sökin á því hvernig fór væri fyrst og fremst þeirra en ekki hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert