Hoddle vill að Capello taki við enska landsliðinu

Glenn Hoddle fyrrum landsliðsþjálfari Englands.
Glenn Hoddle fyrrum landsliðsþjálfari Englands. Reuters

Glenn Hoddle fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga hvetur enska knattspyrnusambandið til að ráða Ítalann Fabio Capello í starf landsliðsþjálfara. Capello, sem hefur gert garðinn frægan með AC Milan, Roma og Real Madrid, hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að taka við þjálfun enska landsliðsins en hann gerði Real Madrid að Spánarmeisturum á síðustu leiktíð.

,,Ég tel Capello réttann manninn til að taka við starfinu. Ef knattspyrnusambandið vill ráða erlendan þjálfara þá þarf það að fá þjálfara sem hefur gert það gott og það hefur Capello svo sannarlega gert. Hann er í mínum augum fyrsti kosturinn í starfið," sagði Hoddle í viðtali við BBC en hann var við stjórnvölinn hjá enska landsliðinu frá 1996 til 1999 og á að baki 53 landsleiki fyrir England.

Brian Barwick framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins og Trevor Brooking sem sæti á í stjórn enska knattspyrnusambandsins munu leiða hóp manna sem á leita eftir nýjum þjálfara. Þeir munu ræða málin í vikunni eftir að Barwick snýr til baka frá Suður-Afríku en dregið verður í riðla í undankeppni HM í Durban í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert