Benítez: Stoltur af stuðningsmönnum okkar

Peter Crouch fagnar eftir að hafa skorað fjórða og síðasta …
Peter Crouch fagnar eftir að hafa skorað fjórða og síðasta mark Liverpool í kvöld. Reuters

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool sagði eftir sigurinn á Porto í kvöld, 4:1, að hann væri afar stoltur af stuðningsmönnum félagsins.

Þeir stóðu þétt við bakið á honum og um 5.000 manns gengu saman að Anfield fyrir leikinn í kvöld til að sýna samstöðu með Benítez í erjum hans við eigendur félagsins en hann er ekki sammála þeim um hvernig standa skuli að leikmannakaupum í janúar.

„Ég er afar stoltur af stuðningsmönnum okkar og það er gott að geta þakkað þeim fyrir stuðninginn í kvöld því þeir vita að ég vil halda áfram að berjast fyrir félagið. Ég á ekki í neinum persónulegum illdeilum við eigendurna eða nokkra aðra. Ég er bara að reyna að bæta liðið og þeir vilja allt það besta fyrir félagið. Við reynum að þróa þetta áfram," sagði Benítez við Sky Sports.

Hann sagði jafnframt að leikurinn hefði verið mjög erfiður. „Þetta var hörkuleikur gegn góðu liði en eftir að við skoruðum annað markið var þetta aðeins auðveldara. Við vissum að við yrðum að vinna síðustu þrjá leikina í riðlinum til að eiga möguleika á að komast áfram og nú eru tveir þeirra í höfn og allt opið ennþá," sagði Benítez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert