Benítez: Hefði getað hætt

Rafael Benítez telur farsælast að vinna alla leiki.
Rafael Benítez telur farsælast að vinna alla leiki. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sem stýrir liði sínu í sannkölluðum stórleik gegn Manchester United á Anfield kl. 13.30 í dag, segir að hann hefði getað hætt hjá félaginu eftir deilurnar frægu við eigendur þess fyrir skömmu.

Benítez fundaði þá með þeim George Gillett og Tom Hicks, bandarísku eigendunum, og vildi fara að huga að þeim leikmannakaupum sem möguleg væru í janúar. Þeir sögðu honum hinsvegar að það væri alltof snemmt að ræða slíkt. Spánverjinn var ósáttur við þau svör.

„Já, ég var mjög undrandi og velti stöðunni vandlega fyrir mér. En eftir miklar vangaveltur komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri farsælast að einbeita sér að því að vinna hvern einasta leik, og ræða síðan við eigendurna um þennan misskilning.

Málið er mjög einfalt í mínum augum, ef ég vil vinna hvern einasta leik fyrir félagið og þeir vilja félaginu allt hið besta, þá er málið leyst. En mér er það ljóst að staða mín hjá félaginu hefur breyst og við þurfum að finna ástæðuna fyrir því," sagði Benítez við dagblaðið Daily Star í dag.

Hann er sannfærður um að Liverpool leggi Manchester United að velli í stórleiknum í dag. Sex stig skilja liðin að í 2. og 5. sæti en Liverpool á leik til góða og takist liðinu að sigra, hafa félögin tapað jafnmörgum stigum.

„Það er alltaf mikilvæg að sigra United, fyrir stuðningsmenn okkar og vegna samkeppninnar milli þessara tveggja félaga. Við viljum sigra þá og í ár erum við nær toppnum en undanfarin ár og því með gott sjálfstraust. Þetta verður mjög sérstakur leikur fyrir okkur. Við vorum mjög nálægt því að sigra þá í fyrra og við unnum þá á heimavelli í bikarnum 2005. Málið er að þeir eru með mjög gott lið og mjög góða leikmenn. Sama er að segja um okkur og ég tel að við getum sigrað þá að þessu sinni," sagði Benítez á vef Liverpool.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert