Wenger: Arsenal og United stöðugust

William Gallas fagnar eftir að hafa skorað sigurmarkið gegn Chelsea.
William Gallas fagnar eftir að hafa skorað sigurmarkið gegn Chelsea. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að sigrar Arsenal og Manchester United í toppleikjum ensku úrvalsdeildarinnar í dag sýni að þessi tvö lið sýni mesta stöðugleikann í deildinni það sem af er tímabilinu.

Arsenal vann Chelsea, 1:0, á heimavelli og Manchester United vann Liverpool, 1:0, á útivelli. Arsenal er áfram með eins stigs forskot á United en hin liðin hafa nú dregist afturúr þeim.

„Við sýndum að við erum mjög seigir og tilbúnir til að berjast um hvern bolta. Við hefðum átt að bæta við marki. Vörn okkar var stórkostleg, það var ekki bara að hún héldi hreinu, heldur sá hún um að skora markið," sagði Wenger en fyrirliðinn William Gallas gerði sigurmarkið með skalla í lok fyrri hálfleiks, þegar Petr Cech markvörður Chelsea missti boltann yfir sig eftir hornspyrnu frá Cesc Fabregas.

„Það er ómögulegt að segja um hve mikil áhrif úrslit dagsins hafa á baráttuna um meistaratitilinn. En Liverpool er nú búið að tapa talsverðu af stigum á heimavelli, sem gæti reynst liðinu erfitt. Chelsea þarf líka að vinna upp forskot eftir þessi úrslit þó liðið hafi sýnt að það sé tilbúið til að berjast. Það sem liggur fyrir í augnablikinu er að Arsenal og Manchester United hafa til þessa sýnt mesta stöðugleikann," sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert