„United er líklegra“

PHIL NOBLE

„Ég hef það á tilfinningunni að Manchester United hafi betur í baráttunni við Arsenal um meistaratitilinn,“ sagði Ívar Ingimarsson, miðvörður Reading, við Morgunblaðið í gær en hann skoraði eitt mark í ótrúlegum leik liðsins á laugardag þegar það tapaði, 6:4, fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Á sama tíma tapaði Manchester United fyrir West Ham, 2:1, á Upton Park og Arsenal komst á toppinn á ný með góðum útisigri á Everton, 4:1.

Ívar sagði að sér virtist Manchester United vera líklegra til að fara alla leið en Arsenal. „Ég held að Ferguson sé með í höndunum mannskapinn sem til þarf til að klára þetta í vetur. En liðið spilaði ekki vel gegn West Ham, sem vann hreint frábæran sigur eftir að hafa lent 0:1 undir. Þar gerði vítaspyrnan sem Cristiano Ronaldo náði ekki að skora úr útslagið,“ sagði Ívar. Ronaldo kom United yfir snemma leiks en skaut svo framhjá úr vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleik. Miðverðirnir Anton Ferdinand og Matthew Upson skoruðu síðan skallamörk og tryggðu West Ham sigurinn, 2:1.

Glæsilegur fótbolti hjá Arsenal í vetur

Arsenal var undir í hálfleik á Goodison Park en vann að lokum 4:1 þar sem Eduardo skoraði tvö mörk og varamennirnir Emmanuel Adebayor og Tomás Rosický eitt hvor. Nicklas Bendtner hjá Arsenal og Mikel Arteta hjá Everton voru báðir reknir af velli.

„Arsenal hefur spilað glæsilegan fótbolta í vetur og er afar líklegt til að fylgja United eftir alla leið. Þetta var reyndar erfiður leikur gegn sterku og vel skipulögðu liði Everton, sem David Moyes er að gera góða hluti með. En leikmenn Everton gerðu sig seka um slæm mistök þegar þeir voru manni fleiri og Arsenal nýtti sér það og tryggði sér sigurinn. Ég sé ekki að neitt lið nái að ógna Arsenal og Manchester United, Chelsea er reyndar að sækja sig og vann Newcastle á umdeildu marki, 2:1, en ég held að þessi tvö lið haldi áfram og berjist um titilinn til loka tímabilsins,“ sagði Ívar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert