Manchester City sigraði 2:1 á Old Trafford

Benjani Mwaruwari fagnar eftir að hafa komið City í 2:0.
Benjani Mwaruwari fagnar eftir að hafa komið City í 2:0. Reuters

Manchester City vann í dag óvæntan sigur í nágrannaslagnum gegn Manchester United, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, á heimavelli United, Old Trafford.

Darius Vassell og Benjani Mwaruwari komu City í 2:0 í fyrri hálfleik en Michael Carrick minnkaði muninn fyrir United í uppbótartíma.

United, sem hafði ekki tapað heimaleik á tímabilinu og unnið 12 deildaleiki í röð á Old Trafford, mistókst þar með að komast uppfyrir Arsenal og á topp deildarinnar. Arsenal getur náð fimm stiga forystu annað kvöld.

City komst hinsvegar uppí 6. sætið með 44 stig og vann sinn fyrsta sigur á Old Trafford í 34 ár, eða síðan í apríl 1974. Þetta er jafnframt í fyrsta skipti síðan 1969-1970 sem City nær að vinna báða leikina gegn United á sama tímabilinu.

Einnar mínútu þögn var fyrir leikinn til að minnast þeirra sem fórust í flugslysinu í München 6. febrúar 1958 og hún fór mjög vel fram og var algjörlega virt af stuðningsmönnum Manchester City. Hleypt var af einu byssuskoti fyrir hvern þann sem lét lífið í slysinu.

City náði forystunni, 1:0, á 24. mínútu eftir glæsilega skyndisókn. Martin Petrov sendi innfyrir vörnina á Stephen Ireland, Edwin van der Sar náði að vera á undan honum í boltann sem hrökk út. Darius Vassell þrumaði að marki, í van der Sar, og fékk boltann aftur og negldi honum þá í netið.

United átti sína fyrstu alvöru marktilraun á 27. mínútu. Carlos Tévez átti þá þrumuskot að marki City en Joe Hart varði glæsilega.

Á 36. mínútu fékk Ronaldo gott færi eftir fyrirgjöf frá Wes Brown og átti fast skot að marki en Richard Dunne miðvörður City bjargaði í horn.

City komst síðan í 2:0 á 45. mínútu, síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Eftir þriðju hornspyrnu City í röð fékk Martin Petrov boltann aftur út á hægri kantinn. Hann þrumaði honum innað markinu og Benjani Mwaruwari sneiddi hann með höfðinu í markhornið fjær. Heldur betur óvænt staða! Frábær byrjun hjá Benjani í sínum fyrsta leik með City.

Staðan í hálfleik 2:0 fyrir Manchester City en fyrir leikinn hafði United aðeins fengið á sig þrjú mörk í deildinni á Old Trafford í vetur.

Carlos Tévez náði að koma boltanum í mark City á 56. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

John O'Shea, vinstri bakvörður Man.Utd, fékk fyrsta gula spjaldið á 57. mínútu fyrir að brjóta á Darius Vassell.

United setti bæði Michael Carrick og Owen Hargreaves inná á 73. mínútu og hafði áður skipt Park Ji-sung inná.

Þegar ein mínúta var komin framyfir leiktímann náði Michael Carrick að senda boltann í mark City, 2:1, með skoti frá vítateig eftir sendingu frá Paul Scholes, en það var of seint til að United næði að ógna sigri granna sinna.

** Lið Man.Utd: Van der Sar - Brown, Vidic, Ferdinand, O'Shea (Carrick 73.) - Nani (Park 64.), Scholes, Anderson (Hargreaves 73.), Giggs - Ronaldo, Tévez.
Varamenn: Simpson, Kuszczak.

** Lið Man.City: Hart - Onuoha, Richards, Dunne, Ball - Vassell, Ireland, Hamann (Jihai 84.), Gelson, Petrov (Garrido 87.) - Benjani (Caicedo 75.)
Varamenn: Isaksson, Geovanni.

Darius Vassell sendir boltann í mark Man.Utd og kemur Man.City …
Darius Vassell sendir boltann í mark Man.Utd og kemur Man.City yfir, 1:0. Reuters
Það var tignarleg sjón að sjá stuðningsmenn beggja liða lyfta …
Það var tignarleg sjón að sjá stuðningsmenn beggja liða lyfta treflum sínum á meðan einnar mínútu þögnin stóð. Reuters
Stjórarnir Alex Ferguson og Sven-Göran Eriksson takast í hendur eftir …
Stjórarnir Alex Ferguson og Sven-Göran Eriksson takast í hendur eftir að hafa lagt kransa á miðju vallarins fyrir leikinn. Reuters
Snemma í morgun var fólk farið að streyma að Old …
Snemma í morgun var fólk farið að streyma að Old Trafford og lagði blóm og ýmsa muni við hlið vallarins. Stuðningsmenn Manchester City voru líka þar á meðal. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert