Giggs leikur sinn 100. leik í Meistaradeildinni

Alex Ferguson hefur mikið dálæti á Ryan Giggs.
Alex Ferguson hefur mikið dálæti á Ryan Giggs. Reuters

Ryan Giggs leikur í kvöld sinn 100. leik fyrir Manchester United í Meistaradeildinni þegar liðið sækir Frakklandsmeistara Lyon í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Giggs, sem er 34 ára gamall, verður áttundi leikmaðurinn sem nær þessum áfanga og hrósar Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri United Walesverjanum snjalla.

,,Hann hefur verið algjör fyrirmynd þann tíma sem hann hefur verið hjá okkur og þetta er frábær árangur að ná að spila svona marga leiki. Við erum mjög stoltir af honum. Til að ná svona árangri þarf að hafa hæfileika sem hann hefur, hann hugsar vel um sig og hefur tileinkað sér góðan lífstíl. Jafnvel þó svo hann sé 34 ára gamall væntum við mikils af honum,“ segir Ferguson.

Giggs, sem lék sinn fyrsta leik með Manchester United þegar hann var 17 ára gamall, hefur leikið 745 leiki með liðinu og nálgast óðum leikjamet Sir Bobby Charlton og í þessum leikjum hefur Giggs skorað 143 mörk.

Hann hefur á ferli sínum með United unnið 15 titla, þar á meðal Evrópumeistaratitilinn sem Manchester United hampaði árið 1999.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert