Wenger: Þessi maður á ekki að spila fótbolta framar

Cesc Fabregas stendur yfir Eduardo og læknir liðsins kemur hlaupandi …
Cesc Fabregas stendur yfir Eduardo og læknir liðsins kemur hlaupandi á vettvang. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur staðfest að meiðslin hjá Eduardo Da Silva séu mjög alvarleg. Hann sagði eftir leikinn við Birmingham í dag að Martin Taylor, sem fótbraut Eduardo, ætti að fara í lífstíðarbann frá fótbolta.

Taylor braut illa á Eduardo strax á 3. mínútu og fékk rauða spjaldið. Gera þurfti átta mínútna hlé á leiknum á meðan hlúð var að króatíska sóknarmanninum sem var fluttur á sjúkrahús. Greinilegt var að hann var illa brotinn, viðbrögð samherja hans gáfu það til kynna, og ljóst er að hann leikur ekki meira á þessu tímabili, og verður væntanlega frá í talsvert lengri tíma en það.

„Ég tel að þessi maður eigi aldrei að spila fótbolta framar. Hvað er svona maður að gera á fótboltavelli?" sagði Wenger bálreiður eftir leikinn. „Þetta brot var búið að gera boð á undan sér í talsverðan tíma því það hefur hefur legið í loftinu að leiðin til að stöðva Arsenal sé að sparka í leikmenn liðsins. Meiðslin hjá Eduardo eru mjög slæm og það er um meira að ræða en það að bara þetta tímabil sé á enda hjá honum," sagði Wenger við Sky Sports.

Enskir fjölmiðlar hafa líkt meiðslunum við þau sem Alan Smith, þá leikmaður Manchester United, varð fyrir í bikarleik gegn Liverpool fyrir tveimur árum. Þá var hinsvegar ekki brotið á Smith, heldur beygðist fóturinn illa undir honum og Smith var þá frá keppni í sjö mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert