Fabregas: Við erum hataðir

Cesc Fabregas fagnar marki sínu gegn AC Milan í Meistaradeildinni.
Cesc Fabregas fagnar marki sínu gegn AC Milan í Meistaradeildinni. Reuters

Cesc Fabregas miðjumaðurinn snjalli hjá Arsenal segir það ergjandi að finna fyrir því að allir gleðjist yfir því þegar Arsenal tapar leikjum en Lundúnaliðið sem á tímabili var með átta stiga forskot á toppi úrvalsdeildarinnar hefur ekki náð vinna í fimm leikjum í röð og er komið niður í þriðja sæti deildarinnar.

Arsenal er sex stigum á eftir Manchester United sem er í efsta sæti en bæði lið verða í baráttunni í dag. Arsenal mætir Bolton á Reebok klukkan 15 en Manchester United fær Aston Villa í heimsókn á Old Trafford klukkan 17.15.

„Mér finnst að í hvert skipti sem við töpum eða spilum illa þá gleðjist allir. Ég skil ekki hvers vegna fólk er á móti þeim sem reyna að spila skemmtilegan fótbolta. Við höfum spilað á köflum frábæran fótbolta á tímabilinu en það er satt, fólki líkar vel að sjá okkur tapa,“ segir Fabregas í viðtali við breska blaðið The Sun í dag.

Spánverjinn segist ekki vera búinn að gefast upp í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

„Ef við ætlum að vinna titilinn þá megum við ekki tapa fleiri stigum. Við verðum hugsa jákvætt og trúa því að við getum orðið meistarar. Hvað sem verður þá munum við berjast til þrautar enda erum við þekktir fyrir það. Við eigum eftir að leika við Manchester United og ætlum að vinna þá á Old Trafford og United á eftir að mæta Chelsea á Stamford Bridge svo þetta er alls ekki búið,“ segir Fabregas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert