Arsenal og Liverpool skildu jöfn, 1:1

Emmanuel Adebayor kom Arsenal yfir og á hér í höggi …
Emmanuel Adebayor kom Arsenal yfir og á hér í höggi við Javier Mascherano í leiknum í kvöld. Reuters

Arsenal og Liverpool gerðu jafntefli, 1:1, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í kvöld.

Emmanuel Adebayor kom Arsenal yfir á 23. mínútu en Dirk Kuyt jafnaði fyrir Liverpool þremur mínútum síðar. Arsenal sótti mun meira en náði ekki að knýja fram sigur og Liverpool stendur því vel að vígi fyrir seinni leikinn sem fer fram á Anfield næsta þriðjudagskvöld.

Robin van Persie fékk fyrsta opna færið á 21. mínútu þegar hann fékk langa sendingu innfyrir vörn Liverpool frá Mathieu Flamini, tók boltann viðstöðulaust á lofti en lyfti honum yfir markið.

Van Persie var aftur á ferð á 22. mínútu þegar hann átti hörkuskot frá vítateig en José Reina markvörður Liverpool varði í horn.

Uppúr hornspyrnunni, á 23. mínútu, komst Arsenal yfir. Emmanuel Adebayor skoraði markið með skalla eftir fyrirgjöf frá van Persie, 1:0.

Liverpool jafnaði á 26. mínútu. Steven Gerrard braust inní vítateiginn vinstra megin og sendi boltann inná markteig þar sem Dirk Kuyt renndi sér á boltann og skoraði, 1:1.

Emmanuel Eboue fékk dauðafæri fyrir Arsenal á 58. mínútu, á markteig Liverpool, en Sami Hyypiä bjargaði á marklínunni.

Arsenal hefði getað fengið vítaspyrnu þegar Dirk Kuyt virtist toga Aliaksandr Hleb niður í vítateig Liverpool en vel staðsettur dómarinn lét leikinn halda áfram.

Liverpool slapp heldur betur með skrekkinn á 70. mínútu þegar Cesc Fabregas skaut en félagi hans, Nicklas Bendtner, var fyrir á marklínunni og bjargaði marki.

Arsenal: Almunia - Toure, Gallas, Senderos, Clichy - Eboue, Flamini, Fabregas, Hleb - van Persie, Adebayor.
Varamenn: Lehmann, Diaby, Song, Gilberto, Bendtner, Hoyte, Walcott.

Liverpool: Reina - Carragher, Skrtel, Hyypiä, Aurelio - Kuyt, Mascherano, Alonso, Gerrard, Babel - Torres.
Varamenn: Itandje, Riise, Voronin, Benayoun, Crouch, Arbeloa, Lucas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert