Chelsea í úrslit í fyrsta sinn eftir 3:2 sigur á Liverpool

Frank Lampard kemur Chelsea í 2:1 með marki úr vítaspyrnu.
Frank Lampard kemur Chelsea í 2:1 með marki úr vítaspyrnu. Reuters

Chelsea tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögu félagsins þegar liðið sigraði Liverpool, 3:2, í framlengdum leik á Stamford Bridge. Það verða því tvö efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni sem mætast í úrslitaleiknum í Moskvu, Manchester United og Chelsea.

Didier Droba skoraði tvö marka Chelsea og Frank Lampard eitt en Fernando Torres og Ryan Babel fyrir Liverpoool.

5. Didier Drogba á fyrstu marktilraunina en Pepe Reina ver fast skot hans í horn. Chelsea menn byrja betur á heimavelli sínum.

10. Fernando Torres kemst ágætt færi, nokkuð þröngt þó en Petr Cech lokar vel á Spánverjann með góðu úthlaupi og ver skot hans í horn.

18. Didier Drogba fær dauðafæri eftir sendingu frá Lampard en skot hans með vinstri fæti er frekar slakt og boltinn rúllar framhjá markinu.

22. Slóvakinn Martin Skrtel í liði Liverpool verður að fara útaf vegna meiðsla og reynsluboltinn Sami Hyppia tekur stöðu hans í vörninni.

Það er ausandi rigning á Stamford Bridge og völlurinn er háll og orðinn þungur á sumum svæðum.

33. MARK!! Didier Drogba kemur Chelsea yfir. Salomon Kalou átti fast skot að markinu sem Pepe Reina varði en Droba náði frákastinu og skoraði með firnaföstu skoti í nærhornið. Chelsea er þar með yfir, 2:1, samanlagt.

Þetta er 16. mark Drogba í Evrópukeppninni fyrir Chelsea og hann er þar með orðinn markahæsti leikmaðurinn í Evrópukeppninni í sögu Lundúnaliðsins.

41. Xabi Alonso miðjumaður Liverpool fær gult spjald fyrir brot á Kalou 27 metrum frá markinu. Ballack tekur spyrnuna en glæsilegt skot hans smýgur framhjá markinu. Þar sluppu leikmenn Liverpool með skrekkinn.

Aðal skrautfjaðrir Liverpool, Gerrard og Torres eru algjörlega týndir og munar muna fyrir Liverpool sem hefur ekki náð neinum tökum á leiknum.

Rossetti dómari hefur flautað til leikhlés á Stamford Bridge. Heimamenn í Chelsea hafa verðskuldaða forystu, 1:0, og eins og staðan lítur út er allt útlit fyrir að tvö efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni leiki til úrslita í Meistaradeildinni.

Síðari hálfleikur er hafinn á Stamford Bridge. Engar breytingar voru gerðar á liðinu í leikhléinu.  Bætt hefur í rigninguna og hætt er við að ljótum tæklingum og mistökum eigi eftir að fjölga.

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United er á meðal áhorfenda á Stamford Bridge og er að fylgast með væntanlegum mótherjum sínum í úrslitaleiknum.

48. Liverpool fær sitt besta færi. Eftir aukaspyrnu skallaði Gerrard inn á markteiginn til Dirk Kuyt en Petr Cech sýndi snilli sína í marki Chelsea og varði í horn.

Meira líf er í leik Liverpool núna og greinilegt að Rafel Benítez hefur lesið yfir sínum mönnum í leikhléinu.

63. MARK!! Fernando Torres jafnar metin fyrir Liverpool. Yossi Benayoun átti glæsilegan sprett og átti fallega sendingu á Spánverjann sem skoraði af öryggi. Fyrsta mark Liverpool á Stamford Bridge í 9 leikjum staðreynd. Verði þetta úrslitin verður að framlengja leikinn í 2x15 mínútur.

69. Florent Malouda kemur inná í lið Chelsea fyrir Salomon Kalou.

76. Micheael Essien á rosalegan sprett þar sem hann leikur á hvern leikmenn Liverpool á fætur öðrum. Ghanamaðurinn endar sprettinn með því að skjóta boltanum í hliðarnetið.

77. Liverpool gerir breytingu. Jeremain Pennant kemur inná fyrir Ísraelsmanninn Yossi Benayoun.

Venjulegum leiktíma er lokið. Staðan, 1:1, og framlengja verður leikinn um 2x15 mínútur.

Framlengingin er hafin. Chelsea gerði breytingu á liði sínu. Joe Cole er farinn af velli fyrir Nicolas Anelka.

92. Sami Hyypia skallar rétt framhjá marki Chelsea eftir hornspyrnu.

94. Michael Essien skorar fyrir Chelsea með þrumuskoti utan teigs. Chelseea menn fagna ógurlega en aðstoðardómarinn lyftir flaggi sínu og gefur merki um rangstöðu á Didier Droga sem stóð í skotlínunni fyrir framan Pepe Reina.

96. MARK!! Frank Lampard kemur Chelsea yfir úr vítaspyrnu sem réttilega var dæmd á Hyypia fyrir brot á Michael Ballack. Lampard fagnar markinu á tilfinningarríkan hátt og tileinkar greinilega móður sinni markið sem lést á dögunum.

96. Fernando Torres er tekinn af velli og inná í hans stað kemur Ryan Babel.

104. MARK!! Didier Drogba kemur Chelsea í 3:1 með marki af stuttu færi eftir sendingu frá Nicolas Anelka. Andartaki síðar er flautað til hálfleiks.

Chelsea leikur nú eins og þeir sem valdið hafa og greinilegt að leikmenn Liverpool hafa játað sig sigraða.

116. MARK!! Ryan Babel skorar með þrumuskoti utan teigs og hleypur þar með spennu í leikinn. Staðan nú, 3:2. Markið verður að skrifast á reikning Petr Cech sem virtist misreikna boltann.

117. Andryi Shevchenko kemur inná fyrir Frank Lampard.

 Fyrir leik:

Liverpool hefur ekki náð að skora á Stamford Bridge í síðustu átta leikjum sínum.

Bruno Cheyrou var síðasti Liverpool maðurinn til að skora á Stamford Bridge en það var í janúar 2004.

Liverpool stefnir að því að slá Chelsea út í undanúrslitum í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Fernando Torres jafnar fyrir Liverpool.
Fernando Torres jafnar fyrir Liverpool. Reuters
Didier Drogba fagnar marki sínu á Stamford Bridge í kvöld.
Didier Drogba fagnar marki sínu á Stamford Bridge í kvöld. Reuters
Frank Lampard og Dirk Kuyt í baráttunni á Stamford Bridge …
Frank Lampard og Dirk Kuyt í baráttunni á Stamford Bridge í kvöld. Reuters
Joe Cole og Xabi Alonso í baráttu um boltann í …
Joe Cole og Xabi Alonso í baráttu um boltann í fyrri leiknum á Anfield. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert