Manchester United er enskur meistari 2008

Leikmenn Manchester United fagna með Englandsbikarinn sem þeir unnu í …
Leikmenn Manchester United fagna með Englandsbikarinn sem þeir unnu í 17. sinn. Reuters

Manchester United varð í dag enskur meistari í knattspyrnu annað árið í röð með því að sigra Wigan, 2:0, á útivelli í lokaumferðinni. Á sama tíma gerðu Chelsea og Bolton jafntefli, 1:1, og United varð því meistari á 87 stigum en Chelsea hlaut 85 stig í öðru sætinu.

Cristiano Ronaldo og Ryan Giggs skoruðu mörk United, sitt í hvorum hálfleik. Giggs kom inná sem varamaður og jafnaði leikjametið hjá Manchester United. Hann spilaði sinn 758. leik, jafnmarga og Bobby Charlton lék á sínum tíma.

Andriy Shevchenko kom Chelsea yfir í seinni hálfleik en Kevin Davies jafnaði fyrir Bolton í blálokin, 1:1, þegar ljóst var orðið að Manchester United væri með titilinn í höndunum. 

Þannig gengu leikirnir fyrir sig: 

Wigan - Manchester United 0:2

Manchester United fékk vítaspyrnu á 32. mínútu þegar Emmerson Boyce braut á Wayne Rooney. Cristiano Ronaldo tók spyrnuna og skoraði, 0:1. Man. Utd skrefi nær enska meistaratitlinum. 

Marcus Bent var rétt búinn að jafna á 37. mínútu fyrir Wigan þegar hann átti hörkuskot í hliðarnetið. 

United hefði getað fengið vítaspyrnu á 53. mínútu þegar Titus Bramble braut á Paul Scholes en Steve Bennett dæmdi ekkert. Engu munaði að Wayne Rooney bætti við marki á 55. mínútu þegar Chris Kirkland varði hörkuskot hans naumlega í horn.

Sáralitlu munaði að Emile Heskey jafnaði fyrir Wigan á 69. mínútu þegar hann átti hörkuskalla eftir aukaspyrnu en boltinn skreið naumlega yfir þverslána á marki Man. Utd. 

Ryan Giggs, sem kom inná sem varamaður, skoraði, 2:0, á 79. mínútu eftir sendingu frá Wayne Rooney. 

Lið Man.Utd: Van der Sar - Brown, Ferdinand, Vidic, Evra - Ronaldo, Carrick, Scholes, Park - Tévez, Rooney.
Varamenn: Kuszczak, Hargreaves, Saha, Giggs, Silvestre.

Chelsea - Bolton 1:1

Chelsea varð fyrir áfalli eftir 15 mínútna leik þegar fyrirliðinn John Terry meiddist og fór af velli. Juliano Belletti kom í hans stað.

Bolton stóð af sér þunga sókn Chelsea á lokakafla fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik 0:0 á Stamford Bridge. 

Florent Malouda átti hörkuskot í þverslána á marki Bolton á 47. mínútu. Varamaðurinn Andriy Shevchenko kom svo Chelsea yfir með skoti af stuttu færi eftir þunga sókn á 62. mínútu, 1:0.

Bolton jafnaði í lok uppbótartíma, 1:1, Kevin Davies með skoti í varnarmann og inn, og sá til þess að enski meistaratitillinn ynnist ekki á markatölu þetta árið, frekar en undanfarin 19 ár.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn með Bolton. 

Lið Chelsea: Cech - Essien, Alex, Terry, A.Cole - Ballack, Makelele, Lampard, J.Cole - Drogba, Malouda.
Varamenn:  Cudicini, Shevchenko, Obi, Kalou, Belletti.
Lið Bolton: Al Habsi - Grétar Rafn Steinsson, O'Brien, Cahill, Samuel - Davies, O'Brien, McCann, Nolan - Taylor, Diouf.
Varamenn: Walker, Jääskeläinen, Meite, Stelios, Cohen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert