Grant krafinn skýringa á ummælum

Avram Grant er ánægður með að sleppa við enska dómara …
Avram Grant er ánægður með að sleppa við enska dómara í Moskvu. Reuters

Enska knattspyrnusambandið krafði í dag Avram Grant, knattspyrnustjóra Chelsea, um skýringar á ummælum sem hann viðhafði fyrr í vikunni um Steve Bennett, dómara, og frammistöðu hans í leik Manchester United og Wigan í lokaumferð úrvalsdeildarinnar.

Grant sagði þá að ýmsar "tilviljanir" hefðu fallið með Manchester United, Wigan hefði verið neitað um vítaspyrnu og Paul Scholes hefði verið sleppt við rauða spjaldið þegar hann braut af sér eftir að hafa fengið það gula.

Ísraelsmaðurinn hefur fengið frest til 28. maí til að svara bréfi sambandsins.

Þeir Grant og Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hafa skipst á skeytum í fjölmiðlum í vikunni en lið þeirra mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Moskvu næsta miðvikudag.

Grant sagði m.a. í vikunni að hann væri feginn að enskir dómarar kæmu hvergi nærri úrslitaleiknum í Moskvu. „Það eru nokkrir mjög góðir dómarar í Englandi en svo eru þó nokkrir sem hægt er að hafa áhrif á," sagði Grant.

Þá hefur hann rifjað upp leik Chelsea og Manchester United á Old Trafford fyrr í vetur þar sem Mikel John Obi, miðjumaður Chelsea, fékk rauða spjaldið í fyrri hálfleik og United vann leikinn, 2:0.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert