Hermann enskur bikarmeistari með Portsmouth

Hermann Hreiðarsson fagnar markinu ásamt Nwankwo Kanu.
Hermann Hreiðarsson fagnar markinu ásamt Nwankwo Kanu. Reuters

Hermann Hreiðarsson varð í dag enskur bikarmeistari í knattspyrnu, fyrstur Íslendinga, þegar Portsmouth lagði Cardiff City að velli, 1:0, í úrslitaleik bikarkeppninnar á Wembley-leikvanginum í London.

Það var Nwankwo Kanu, Nígeríumaðurinn gamalkunni, sem skoraði sigurmark Portsmouth á 37. mínútu. Hermann lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar og stóð vel fyrir sínu.

Paul Parry hjá Cardiff fékk fyrsta færi leiksins á 13. mínútu þegar hann fékk sendingu í gegnum miðja vörn Portsmouth. David James bjargaði með úthlaupi. Mínútu síðar fékk Peter Whittingham upplagt skotfæri á miðri vítateigslínu Portsmouth en skaut í samherja og framhjá markinu.

Portsmouth fékk sannkallað dauðafæri á 22. mínútu eftir fallega sókn upp vinstra megin sem Hermann Hreiðarsson átti drjúgan þátt í. Nwankwo Kanu plataði varnarmann, fór framhjá Enckelmann markverði vinstra megin en skaut í stöng úr þröngu færi!

Stephen McPhail hjá Cardiff fékk upplagt færi til að skora á 24. mínútu, eftir aukaspyrnu. Hann fékk boltann við vítapunkt en skotið var misheppnað og boltinn fór í varnarmann.

Portsmouth náði forystunni á 37. mínútu. John Utaka átti fasta fyrirgjöf frá hægri, Peter Enckelmann hélt ekki boltanum við nærstöngina og Nwankwo Kanu var mættur og ýtti honum í netið.

Mikið gekk á undir lok fyrri hálfleiksins. Hermann Hreiðarsson fékk gula spjaldið fyrir að mótmæla aukaspyrnu sem dæmd var á hann og Cardiff skoraði í kjölfarið mark sem dæmt var af vegna brots. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

Kanu fékk fínt færi til að bæta við marki eftir fallega sókn Portsmouth á 53. mínútu en skaut í varnarmann og horn eftir sendingu frá Lassana Diarra.

Niko Kranjcar hjá Portsmouth fékk gula spjaldið á 54. mínútu fyrir að brjóta á leikmanni Cardiff sem var á leið í hraða sókn á miðjum velli.

David Nugent átti hörkuskot á mark Cardiff úr þröngu færi á 71. mínútu en Enckelmann varði í horn.

Glenn Loovens hjá Cardiff átti hættulegan skalla eftir hornspyrnu á 79. mínútu en í jörðina og yfir mark Portsmouth.

Hermann og félagar lögðu höfuðáherslu á að halda fengnum hlut á lokakafla leiksins og það gerðu þeir af nokkru öryggi. Undir lok fjögurra mínútna uppbótartíma skall þó hurð nærri hælum í vítateig Portsmouth þegar Aaron Ramsey komst í gott skotfæri en Glen Johnson kastaði sér fyrir hann og varði skotið í horn.

Uppúr hornspyrnu í kjölfarið var flautað til leiksloka og gífurleg fagnaðarlæti brutust út hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Portsmouth.

Lið Portsmouth: David James - Glen Johnson, Sol Campbell, Sylvain Distin, Hermann Hreiðarsson - Lassana Diarra, Pedro Mendes (Papa Bouba Diop 78.), Sulley Muntari - John Utaka (David Nugent 69.), Nwankwo Kanu (Milan Baros 87.), Niko Kranjcar.

Lið Cardiff: Peter Enckelmann, Kevin McNaughton, Roger Johnson, Glenn Loovens, Tony Capaldi, Gavin Rae (Trevor Sinclair 87.), Stephen McPhail, Paul Parry, Peter Whittingham (Aaron Ramsey 61.), Joe Ledley, Jimmy Floyd Hasselbaink (Steven Thompson 70.)

Nwankwo Kanu lyftir boltanum yfir Enckelmann markvörð Cardiff og í …
Nwankwo Kanu lyftir boltanum yfir Enckelmann markvörð Cardiff og í markið, 1:0. Reuters
David James bjargar frá Paul Parry á 13. mínútu leiksins.
David James bjargar frá Paul Parry á 13. mínútu leiksins. Reuters
Stuðningsmenn Portsmouth eru líflegir á Wembley í dag.
Stuðningsmenn Portsmouth eru líflegir á Wembley í dag. Reuters
Stuðningsmenn Cardiff eru spenntir fyrir úrslitaleiknum.
Stuðningsmenn Cardiff eru spenntir fyrir úrslitaleiknum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert