Nýliðar Hull ætla að styrkja hópinn verulega

Nick Barmby og fyrirliðinn Ian Ashbee fagna sæti Hull í …
Nick Barmby og fyrirliðinn Ian Ashbee fagna sæti Hull í úrvalsdeildinni. Reuters

Phil Brown, knattspyrnustjóri Hull City, segir að nýliðarnir ætli að styrkja hóp sinn verulega fyrir sitt fyrsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni og menn megi búast við tíðum fréttum úr herbúðum liðsins næstu vikurnar.

Hull kom verulega á óvart með því að vinna sér úrvalsdeildarsæti í vor og fæstir eiga von á miklum afrekum frá liðinu í baráttu við þá bestu næsta vetur. Brown ætlar sér hinsvegar að vera með lið sem verði tilbúið í slaginn.

„Það er mikil vinna búin að fara fram á bakvið tjöldin, við höfum hitt leikmenn, fjölskyldur þeirra og umboðsmenn, og erum að reyna að ganga frá öllum lausum endum. Síðasta sumar keyptum við þrjá leikmenn sama daginn og svipað gæti átt sér stað innan skamms, vonandi innan einnar eða tveggja vikna," sagði Brown við Sky Sports í dag.

„Ég vonast eftir því að það verði komnir 6-7 nýir leikmenn í hópinn áður en keppni í deildinni hefst, allt leikmenn sem séu samkeppnishæfir í úrvalsdeildinni," sagði Brown sem er þegar búinn að kalla sinn hóp saman til æfinga.

„Við erum þremur vikum á undan öllum öðrum, hvað líkamsástand varðar, því við mættum snemma til æfinga. Við ætlum að vera samkeppnisfærir næsta vetur, ekki bara vera með, og verðum að vera tilbúnir til að vinna upp þann mun sem kann að vera á gæðum okkar liðs og annarra með hlaupum og baráttu," sagði knattspyrnustjórinn sem lengi starfaði sem aðstoðarmaður Sams Allardyce hjá Bolton.

Hull fær Fulham í heimsókn í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar laugardaginn 16. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert