FH-Aston Villa: Hraði Agbonlahor og Young getur gert gæfumuninn

Leikmenn Aston Villa á æfingu á Laugardalsvellinum í gærkvöld.
Leikmenn Aston Villa á æfingu á Laugardalsvellinum í gærkvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nicky Shorey, einn af nýju leikmönnunum í liði Aston Villa, segir að hraði Gabriel Agbonlahor og Ashley Young geti gert gæfumuninn í leik liðsins gegn FH-ingum á Laugardalsvellinum í kvöld en fastlega er reiknað með að Shorey leiki sinn fyrsta leik fyrir félagið en hann gekk nýlega til liðs við það frá Reading.

,,Ég er glaður að þurfa ekki að mæta þeim í hverri viku. Það er nógu erfitt að eiga við þá á æfingu,“ sagði Shorey eftir æfingu Aston Villa liðsins á Laugardalsvellinum í gærkvöldi og átti þar við þá Agbonlahor og Young.

„Það eru spennandi tímar fram undan hjá félaginu og vonandi gengur okkur vel í Evrópukeppninni og það verður frábært að hefja ferilinn hjá Aston Villa með Evrópuleik,“ segir Shorey.

Leikur FH og Aston Villa á Laugardalsvellinum í kvöld hefst klukkan 18.

Martin O'Neill upplýsti á blaðamannafundi á Laugardalsvellinum í gær að danski landsliðsmaðurinn Martin Laursen verði með fyrirliðabandið gegn FH-ingum í kvöld. Gareth Barry var fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð en þar sem framtíð hans hjá félaginu hefur verið í óvissu þá ákvað O'Neill að skipa Laursen fyrirliða í leiknum í kvöld.

„Ég hef ákveðið að Laursen verði fyrirliði í leiknum við FH en ég hef ekki tekið ákvörðun hver muni gegna fyrirliðastöðunni hjá okkur á tímabilinu. Það eru margir leiðtogar í hópnum og fyrir utan Laursen get ég nefnt Nigel Reo-Coker og John Carew,“ sagði O'Neill.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert