Á að velja Jonny Evans?

Evans átti meðal annars hörkuskalla í stöng í leiknum við …
Evans átti meðal annars hörkuskalla í stöng í leiknum við Villarreal á miðvikudagskvöld. Reuters

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, stendur frammi fyrir erfiðu vali þegar kemur að því að ákveða hvaða varnarmönnum hann stillir upp í byrjunarliði í stórleiknum við Chelsea um næstu helgi.

Nemanja Vidic tekur út leikbann eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið í leiknum gegn Liverpool á laugardaginn og því ljóst að einhverjar breytingar þarf að gera.

Alla jafna myndi Ferguson leysa svona mál með því að setja Gary Neville í hægri bakvarðastöðuna og Wes Brown í miðvörð, en eftir mjög góðan leik hins tvítuga Jonny Evans gegn Villarreal í gær er Ferguson í miklum vafa um hvað skuli gera.

„Ég þarf að ákveða hvort ég vel Evans með hans getu en reynsluleysi, eða hvort ég vel Wes með alla sína reynslu og hef Gary í hægri-bakverðinum. Gary var aðeins að spila sinn annan alvöru leik í langan tíma gegn Villarreal, en hann stóð sig vel. Hann gæti því vel spilað á sunnudaginn en Evans var að sama skapi frábær,“ sagði Ferguson.

„Af tvítugum leikmanni að vera hefur hann sýnt mikinn þroska í sínum leik. Hann er öflugur í loftinu, kann vel að fara með boltann og ég hef mikla trú á að hann geti farið inn í byrjunarliðið og staðið sig með sóma,“ bætti Skotinn við.

Leikur Chelsea og United hefst á sunnudaginn kl. 13:00 að íslenskum tíma á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert