Magnaður sigur Liverpool

Albert Riera geysist í átt að marki Manchester City en …
Albert Riera geysist í átt að marki Manchester City en Elano reynir að stöðva hann. Reuters

Chelsea og Liverpool tróna áfram á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir sigra í dag. Chelsea vann Aston Villa, 2:0, og Liverpool lagði Manchester City, 3:2, í mögnuðum leik á Borgarleikvanginum í Manchester eftir að City var 2:0 yfir í hálfleik.

Manchester City virtist stefna í öruggan sigur því Stephen Ireland skoraði, 1:0, á 19. mínútu með þrumuskoti eftir fyrirgjöf frá Shaun Wright-Phillips og José Garrido bætti við marki beint úr aukaspyrnu, 2:1, á 41. mínútu.

En Liverpool kom tvíeflt til síðari hálfleiks. Fernando Torres skoraði, 2:1, á 55. mínútu og á 67. mínútu fékk Pablo Zabaleta, varnarmaður City, rauða spjaldið. Torres jafnaði, 2:2, á 73. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Þegar komið var framí uppbótartíma var Torres enn á ferð. Hann skaut, skotið var varið en Dirk Kuyt fylgdi eftir og skoraði sigurmarkið, 3:2.
Bein lýsing, smellið hér.

Chelsea gerði út um leikinn gegn Aston Villa í fyrri hálfleik og gerði þá bæði mörk sín. Joe Cole kom Lundúnaliðinu yfir á 21. mínútu og Nicolas Anelka bætti við marki, 2:0, einni mínútu fyrir lok hálfleiksins.
Bein lýsing, smellið hér.

Nýliðar Hull skutust uppí þriðja sæti með því að sigra Tottenham, 1:0, á útivelli, og Tottenham situr því áfram á botninum, án sigurs. Geovanni skoraði markið beint úr aukaspyrnu strax á 3. mínútu.
Bein lýsing, smellið hér.

Portsmouth lyfti sér uppí efri hluta deildarinnar með því að sigra Stoke City, 2:1, á Fratton Park. Peter Crouch skoraði glæsimark með hjólhestaspyrnu á 25. mínútu en Ricardo Fuller jafnaði fyrir Stoke í byrjun síðari hálfleiks. Aðeins þremur mínútum síðar svaraði Jermain Defoe fyrir Portsmouth, 2:1, og það reyndist sigurmarkið.

Hermann Hreiðarsson kom inná sem varamaður hjá Portsmouth í þann mund sem uppbótartími var að hefjast.
Bein lýsing, smellið hér.

Chelsea og Liverpool eru nú með 17 stig hvort á toppnum en Hull er í þriðja sætinu með 14 stig. Siðan koma Arsenal og Aston Villa með 13 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert