Phil Brown: Byrjunin draumi líkast

Phil Brown knattspyrnustjóri Hull.
Phil Brown knattspyrnustjóri Hull. Reuters

Phil Brown knattspyrnustjóri Hull segir byrjun sinna manna í ensku úrvalsdeildinni draumi líkast en eftir sigur nýliðanna á WBA, 3:0, í dag er Hull komið upp að hlið Chelsea og Liverpool. Öll liðin hafa 20 stig en Chelsea og Liverpool eigast við á Stamford Bridge á morgun.

„Við höfðum heppnina með okkur fyrstu 15 mínúturnar og það vill gerast þegar gengið er gott. Síðasta stundarfjórðunginn í fyrri hálfleik þá náðum við að spila okkar leik og seinni hálfleikurinn var frábær. Þetta var þriðji leikurinn sem við höldum markinu hreinu og það er mjög þýðingarmikið. Byrjunin hjá okkur í deildinni er draumi líkast. Við höfum 20 stig og ef okkur tekst að endurtaka leikinn í næstu 10 leikjum þá verð ég ánægður," sagði Phil Brown.

Það eru engir smáleikir framundan hjá Hull. Á miðvikudaginn tekur liðið á móti Chelsea og næsta laugardaginn sækja nýliðarnir Englands-og Evrópumeistara Manchester United heim á Old Trafford. Þessir leikir ættu að verða enn frekari prófsteinn á liðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert