Gerrard vill ljúka ferlinum hjá Liverpool

Steven Gerrard hinn magnaði fyrirliði Liverpool.
Steven Gerrard hinn magnaði fyrirliði Liverpool. Reuters

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool vill enda feril sinn hjá Liverpool en þessi 28 ára gamli miðjumaður sem af mörgum er talinn einn sá besti í heimi á tvö og hálft ár eftir af núgildandi samningi sínum við félagið.

,,Vonandi mun ég gera nýjan samning og vera hjá liðinu það sem eftir er af ferli mínum,“ segir Gerrard á vef Liverpool en hann lék sinn fyrsta leik með Liverpool fyrir 10 árum síðan.

,,Ég veit ekki hvað mun gerast á næstu 10 árum en örugglega næstu fimm til sex árin verð ég að spila með aðalliði Liverpool,“ segir Gerrard, sem verður fjarri góðu gamni á morgun vegna meiðsla þegar Liverpool mætir Fulham í úrvalsdeildinni.

Gerrard hafnaði tilboði frá Chelsea fyrir þremur árum fáeinum mánuðum eftir að hafa hampað Evrópumeistaratitlinum með liði sínu.

,,Ef einhver hefði sagt fyrir 10 árum að ég ætti eftir að verða fyrirliði og lyfta Evrópubikarnum á loft þá hefði ég trúað honum. En ég hef lagt afar hart að mér til að komast á þann stað sem ég er í og vinna titla bæði sem einstaklingur og sem hluti af liðinu. Ég er mjög stoltur að geta sagt frá því að ég hafi spilað með aðalliðinu í 10 ár,“ sagði Gerrard.

Gerrard hefur á ferli sínum með Liverpool spilað 457 leiki og skorað í þeim 103 mörk. Þá á hann að baki 70 leiki með enska landsliðinu og mörkin eru 14 talsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert