Tévez tryggði Man.Utd sigur á Stoke - Chelsea á toppinn

Andy Wilkinson og Carlos Tevez í baráttu á Britannia vellinum …
Andy Wilkinson og Carlos Tevez í baráttu á Britannia vellinum í Stoke. Reuters

Carlos Tévez kom Englandsmeisturum Manchester United til bjargar gegn Stoke á Britannia vellinum í Stoke í dag. Meistararnir mörðo 1:0 sigur og skoraði Tévez sigurmarkið á 82. mínútu eftir sendingu frá Dimitar Berbatov en heimamenn í Stoke misstu mann af velli tíu mínútum áður þegar Andy Wilkinson var sendur af velli.

Baráttuglaðir leikmenn Stoke náðu að halda nýkrýndum heimsmeisturum Manchester United algjörlega í skefjum en United-liðið komst aldrei í gírinn og sérstaklega voru Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney daufir og munar um minna. 

Chelsea skaust á toppinn eftir 2:0 sigur á botnliði WBA og komu bæði mörkin í fyrri hálfleik. Didier Drogba skoraði fyrra markið eftir þriggja mínútna leik. Markið skoraði hann með skalla og var þetta fyrsta mark Fílbeinsstrandarmannsins í úrvalsdeildinni á tímabilinu. Frank Lampard bætti við öðru á lokamínútu fyrri hálfleiks.

West Ham gerði góða ferð á Fratton Park en Íslendingaliðið vann stórsigur, 4:1. Craig Bellamy skoraði tvö marka West Ham og þeir Carlton Cole og Jack Collison gerðu sitt markið hver en Nadir Belhadj skoraði mark heimamanna sem var það fyrsta í leiknum. Jermain Defoe fór illa að ráði sínu en hann náði ekki að nýta vítaspyrnu fyrir Portsmouth í stöðunni, 1:1. Hermann Hreiðarsson sat á bekknum allan tímann hjá Portsmouth eftir að hafa verið í byrjunarliðinu í leikjunum tveimur á undan.

Þá gerðu Tottenham og Fulham jafntefli, 0:0, á White Hart Lane.


Stoke - Manchester United atvikalýsing

Chelsea - WBA atvikalýsing

Portsmouth - West Ham atvikalýsing

Tottenham - Fulham atvikalýsing


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert