Guðjón: Ég er ekki kraftaverkamaður

Guðjón Þórðarson er mættur til leiks í Crewe.
Guðjón Þórðarson er mættur til leiks í Crewe. mbl.is/G.Rúnar

Guðjón Þórðarson var formlega kynntur til sögunnar sem knattspyrnustjóri enska 2. deildarliðsins Crewe í morgun. Á blaðamannafundi sagðist Guðjón ekki vera kraftaverkamaður en hann hefði fulla trú á því að Crewe tækist að halda sæti sínu í deildinni þrátt fyrir erfiða stöðu.

„Ég get ekki lofað neinu því fótboltinn er svo óútreiknanlegur, en ég get sagt við stuðningsmenn félagsins að ég er sami Guðjón og áður. Það er í mörg horn að líta og mitt hlutverk er að ná því mesta út úr öllum leikmönnum liðsins. Það er áskorunin sem bíður.

Það er í mínum höndum að koma þessu félagi aftur á rétta braut. Það er ekkert handrit til að slíku, og allt sem ég get gert er að takast á  við hlutina eins og þeir eru. Þetta verður erfitt en ég hef fulla trú á að við munum standa uppi sem sigurvegarar," sagði Guðjón og kvaðst ánægður með vinnusamt og metnaðarfullt starfsfólk félagsins.

„Starfsfólkið þarf ekki að hafa neinar áhyggjur. Við stöndum öll saman í þessu. Ég vil fá þau með mér og leggja hart að sér til að snúa gengi liðsins á rétta braut. Ég kem ekki hingað og þykist vera kraftaverkamaður. Agi og ákveðni eru upphaf alls," sagði Guðjón Þórðarson sem stýrir liði Crewe í fyrsta skipti á laugardaginn þegar það sækir Millwall heim í 3. umferð bikarkeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert