Liverpool kaupir Guðlaug af AGF

Guðlaugur Victor Pálsson er á leið til Liverpool.
Guðlaugur Victor Pálsson er á leið til Liverpool. Ljósmynd/ Ásta Marta

Enska stórliðið Liverpool hefur náð samkomulagi við danska úrvalsdeildarfélagið AGF um kaup á íslenska unglingalandsliðsmanninum Guðlaugi Victori Pálssyni.

Umboðsmaður hans, Guðlaugur Tómasson, staðfestir þetta við Fótbolta.net og danska blaðið Ekstrabladet segir að Guðlaugur Victor eigi aðeins eftir að gangast undir læknisskoðun hjá Liverpool áður en gengið verði frá kaupum á honum.

Guðlaugur er 17 ára gamall og hefur verið í röðum AGF í hálft annað ár en hann kom þangað frá Fylki. Hann hefur leikið með U19 og U17 ára landsliðum Íslands. Guðlaugur fór til reynslu til Liverpool í haust og enska liðið hefur frá þeim tíma verið mjög áhugasamt um að fá hann í sínar raðir.

AGF tilkynnti laust fyrir áramótin að Guðlaugur Victor hefði verið færður uppí aðalliðshóp félagsins og hann átti að hefja æfingar þar af fullum krafti frá og með næsta mánudegi.

Guðlaugur Victor verður annar Íslendingurinn til að ganga til liðs við Liverpool en Haukur Ingi Guðnason var í röðum félagsins tvö tímabil, 1998-2000.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert