Maradona ræsti út leikmenn Chelsea með vindlareyk

Maradona er góðvinur Fidel Castro og fær reglulega Kúbuvindla frá …
Maradona er góðvinur Fidel Castro og fær reglulega Kúbuvindla frá þeim gamla. Reuters

Diego Armando Maradona, þjálfari argentíska landsliðsins í knattspyrnu, kann að hafa verið maðurinn á bakvið sigur Manchester United á Chelsea í gær, er hann kom brunakerfinu af stað á hóteli sínu, aðfaranótt sunnudagsins.

Leikmönnum, Chelsea, ásamt öðrum gestum Radisson Edwardian hótelsins í Manchester, var gert að yfirgefa hótelið klukkan sjö að morgni sunnudags, þar sem brunakerfið hafði farið í gang.

„Svo virðist sem kerfið hafi verið sett af stað af Maradona og fylgdarliði hans, sem voru að reykja vindla á 14. hæð hótelsins,“ sagði slökkviliðsmaður við fjölmiðla í gær.

Vitni sagði leikmenn Chelsea hafa verið skjálfandi af kulda fyrir utan hótelið í bítið, og hver veit nema vakningin hafi setið í þeim í leiknum í gær, en Chelsea var langt frá sínu besta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert