Man Utd burstaði WBA, 5:0, og setti met - Heiðar skoraði tvö fyrir QPR

Dimitar Berbatov í baráttu við Chris Brunt í leik WBA …
Dimitar Berbatov í baráttu við Chris Brunt í leik WBA og United í kvöld. Reuters

Manchester United burstaði WBA, 5:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld og náði þar með þriggja stiga forskoti á toppi deildarinnar. Aston Villa vann góðan útisigur á Portsmouth og Tottenham skellti Stoke á heimavelli.

Heiðar Helguson skoraði tvö af mörkum QPR sem sigraði Blackpool í ensku 1. deildinni, 3:0.

United setti met með sigrinum í kvöld en liðið hefur nú leikið 11 leiki í röð í úrvalsdeildinni án þess að fá sig mark. Edwin van der Sar tók met af Petr Cech markverði Chelsea en Van der Sar hefur ekki fengið á sig mark í 1031 mínútu í deildinni.

Cristiano Ronaldo skoraði tvö marka United og þeir Berbatov, Tevez og Vidic gerðu eitt mark hver en heimamenn léku manni færri í 50 mínútur eftir að fyrirliðanum Paul Robinson var vikið af velli fyrir brot á Park.

Hermann Hreiðarsson lék allan tímann fyrir Portsmouth sem tapaði á heimavelli fyrir Aston Villa. Nýji liðsmaðurinn Emile Heskey skoraði sigurmarkið og með sigrinum komst Aston Villa uppfyrir Chelsea í þriðja sætið.

Tottenham gerði út leikinn gegn Stoke í fyrri hálfleik. Liðið skoraði þá þrívegis og voru Aaron Lennon, Jermain Defoe og Michael Dawson þar af verki en James Beattie minnkaði muninn fyrir Stoke í seinni hálfleik.

Kenwyne Jones tryggði Sunderland sigur á Fulham með eina marki leiksins á 55. mínútu.

Jermain Defoe skorar fyrir Tottenham gegn Stoke í kvöld.
Jermain Defoe skorar fyrir Tottenham gegn Stoke í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert