Ronaldo með sigurmark United sem hefur fimm stiga forskot

Cristiano Ronaldo og Tony Hibbert í baráttu á Old Trafford …
Cristiano Ronaldo og Tony Hibbert í baráttu á Old Trafford í kvöld. Reuters

Cristiano Ronaldo tryggði Englandsmeisturum Manchester United 1:0 sigur á Everton en liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld. Með sigrinum náði United fimm stiga forskoti á Chelsea og Liverpool í efsta sæti en þau lið eigast við á Anfield á morgun. Þetta var 12. leikurinn í röð sem Manchester Unied fær ekki á sig mark í úrvalsdeildinni.

Markið sem réði úrslitum skoraði Ronaldo úr vítaspyrnu á 44. mínútu en vítaspyrnan var dæmd á Mikel Arteta þegar hann braut á Michael Carrick innan vítateigs.

Heimamenn höfðu tögl og hagldir allan tímann og var sigur þeirra sanngjarn þó svo að liðið hafi oft leikið betur en liðsmenn Everton börðust af krafti en hittu einfaldlega fyrir ofjarla sína.

Edwin van der Sar hefur nú haldið marki sínu hreinu í samtals 1.122 mínútur sem er met í ensku úrvalsdeildinni og þá bætti hann 30 ára gamalt met í ensku deildarkeppninni. Gamla metið átti Steve Death markvörður Reading sem fékk ekki á sig mark í samtals 1.104 mínútur.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert