Torres tryggði Liverpool sigur á Chelsea

Florent Malouda og Alvaro Arbeloa í baráttunni á Anfield í …
Florent Malouda og Alvaro Arbeloa í baráttunni á Anfield í dag. Reuters

Fernando Torres var hetja Liverpool þegar liðið sigraði Chelsea, 2:0, í toppslag ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en liðin áttust við á Anfield. Spánverjinn snjalli skoraði bæði Liverpool á síðustu 5 mínútum leiksins og með sigrinum endurheimti Liverpool annað sætið, er tveimur stigum á eftir Manchester United en hefur leikið einum leik meira.

Chelsea varð fyrir áfralli á 60. mínútu þegar Frank Lampard var rekinn af velli fyrir brot á Xabi Alonso. Afar strangur dómur hjá Mike Riley en Liverpool færði sér liðsmuninn í nyt og sótti grimmt að marki Chelsea það sem eftir lifði leiksins.

Það var ekki en fyrr en á 88. mínútu sem Liverpool náði að brjóta ísinn þegar Torres skoraði með glæsilegri kollspyrnu eftir sendingu frá Aurelio og Torres var svo aftur á ferðinni á lokamínútunni þegar hann skoraði auðveldlega af stuttu færi eftir að Ashley Cole hafði misst boltann klaufalega frá sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert