Adams: Fékk hvorki tíma né stuðning

Tony Adams niðurlútur eftir að hans menn misstu niður 2:1 …
Tony Adams niðurlútur eftir að hans menn misstu niður 2:1 forystu á lokamínútunum gegn Liverpool á laugardag. Reuters

Tony Adams, sem var í dag sagt upp starfi sínu sem knattspyrnustjóra Portsmouth, kveðst hafa orðið frekar undrandi á uppsögninni. Hann hefði hvorki fengið nægilegan tíma né stuðning til að koma liðinu á rétta braut.

Adams tók við liðinu í október þegar Harry Redknapp hvarf á braut til Tottenham og samdi til hálfs þriðja árs. Hann var því aðeins rúma þrjá mánuðí í starfi en á þeim tíma lék liðið 22 leiki. Aðeins tveir deildaleikir af sextán unnust undir hans stjórn.

„Ég er dálítið hissa á þessu en vissulega hafa úrslitin hjá okkur ekki verið hagstæð. Ég fékk ekki langan tíma, og fékk svo sannarlega ekki fjárhagslegan stuðning til að byggja liðið upp. Það hefur verið talsvert um meiðsli og þau hafa gert okkur erfitt fyrir. En þetta slær mig ekki út af laginu, ég er tilbúinn til að halda áfram í þessu starfi en verð að gæta þess að allt sé í lagi þegar ég tek við því næsta. Ég bíð spenntur eftir því, mun læra af þessari reynslu og nýta hana," sagði Adams við Sky Sports í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert