Ferguson undrandi á brottrekstri Scolari

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United.
Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segist hafa hafa orðið mjög undrandi þegar honum barst til eyrna að Chelsea hefði rekið Luiz Felipe Scolari úr starfi knattspyrnustjóra Chelsea.

,,Ég er mjög undrandi og þetta er bara áfall. Hann var aðeins sjö mánuði í starfi. Scolari er maður með gríðarlega reynslu. Hann gerði Brasilíumenn að heimsmeisturum og hann var góður kostur fyrir Chelsea að taka við starfi Avram Grants. En þetta er kannski tímanna tákn. Það er engin þolinmæði í heiminum í dag,“ segir Ferguson á vef Manchester United.

„Eftir að hafa tapað úrslitaleiknum í Meistaradeildinni síðastliðið vor voru samt vonir hjá Chelsea að gera það gott á þessu tímabili. Það er aðeins síðasta mánuðinn sem liðið hefur átt erfitt uppdráttar svo mér finnst hann dæmdur af verkum síðasta mánuðinn, ekki sex mánuðina þar á undan. Það kemur á óvart,“ segir Ferguson, sem staddur er á Möltu til að fagna 50 ára afmæli stuðningsmannaklúbbs Manchester United.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert