Gallas og Toure mættu of seint

Kolo Toure og William Gallas voru seinir fyrir.
Kolo Toure og William Gallas voru seinir fyrir. Reuters

Það vakti eftirtekt að þeir William Gallas og Kolo Toure, varnarmenn Arsenal, mættu báðir of seint til leiks þegar flautað var til síðari hálfleiks í leik Arsenal og Roma í Meistaradeildinni í gær.

Þegar dómarinn flautaði til síðari hálfleiks voru aðeins níu leikmenn Arsenal inni á vellinum. Toure og Gallas voru hvergi sjáanlegir. „Þetta á sínar „eðlilegu“ skýringar,“ segir Arsene Wenger, knattspyrnustjóri félagsins.

„Það var verið að  hlúa að smávægilegum meiðslum hjá Gallas og Toure vissi það ekki, en hann fer alltaf síðastur út á völlinn. Hann beið því eftir að búið væri að hlúa að Gallas og hvorugur vissi að leikurinn var hafinn. Þetta voru okkar mistök,“ sagði Wenger, en Toure er hjátrúarfullur hvað þetta varðar og fer alltaf síðastur út.

Þegar þeir komu út úr göngunum sáu þeir að leikurinn var hafinn. Toure hljóp beint inn á völlinn og fékk gult spjald fyrir, en Gallas beið eftir því að dómarinn leyfði honum að koma inná.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert